Góður gangur í grálúðuveiðum

Deila:

Kap II VE hefur frá því í júlíbyrjun veitt yfir 300 tonn af grálúðu í net djúpt úti fyrir Austfjörðum. Langt er síðan Vinnslustöðin hefur stundað netaveiðar og landvinnslu á grálúðu. Frá þessu er sagt á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Nokkurn tíma tók að gera skipið klárt til veiða en síðan hafa þær gengið betur en gert var ráð fyrir. Kap landaði fyrst 5. júlí á Eskifirði og eftir það tvisvar í viku þar að jafnaði, rúmlega 20 tonnum í hvert sinn.

Svo vel fiskaðist í upphafi að ákveðið var að fækka netum til að viðhalda gæðum aflans. Byrjað var með 10 trossur en þeim svo fækkað í 6, í hverri trossu eru 70 net.

„Við vorum í glimrandi veiði í sumar, langt framar vonum. Þegar mest var fengum við fisk í 84 kör úr 75 netum, alls um 28 tonn. Heldur hefur dregið úr veiðinni en okkur gengur vel,“ segir Kristgeir Arnar Ólafsson, skipstjóri á KAP II í símtali þar sem hann er staddur í eindæma veðurblíðu á miðunum fyrir austan land.

„Fæstir í áhöfninni þekktu grálúðu sem matfisk fyrr en nú og okkur kemur á óvart hve svakalega góð hún er. Við borðum grálúðu í annað hvert mál!“

Seld til Frakklands og Asíu

Grálúðan er seld fersk og heil til Frakklands beint frá Eskifirði eða í  gegnum Reykjavík.

Hluti aflans er fluttur til Vestmannaeyja og unninn í frystar afurðir í Vinnslustöðinni, aðallega fyrir Asíumarkað.

„Grálúðan er fín og verðmæt vara. Þessi árstími er reyndar ekki sá besti til að selja hana en gengur samt vel. Góður markaður er fyrir bæði ferska og frysta grálúðu og við njótum þess auðvitað að hafa byggt upp eigin sölustarfsemi erlendis,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskssviðs hjá VSV.

 

Deila: