Báðir aðilar verða að gefa eftir

Deila:

Sjávarútvegsráðherra segir augljóst að bæði sjómenn og útgerðin þurfi að gefa eftir til að leysa sjómannaverkfallið, ástandið sé orðið alvarlegt. Varla sé svo mikið útistandandi að menn komist ekki yfir það. Hann segir í samtali á ruv.is að lög á verkfallið ekki hafa verið rædd.

 

Verkfall sjómanna hefur nú staðið í þrjár vikur eftir að sjómenn felldu kjarasamning í annað sinn. Deilendur hittast hjá ríkissáttasemjara á morgun. Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegsráðherra segir mjög mikilvægt að í þessari lotu nái deilendur samkomulagi.

„Það er afar slæmt þegar hlutir dragast á langinn eins og þarna er klárlega að gerast. Það er hins vegar, að mér skilst, fundur á morgun og ég vona að menn komi nú með opinn huga inn á þann fund og reyni að finna lausn á þessu.  Ég held að það sé augljóst að báðir aðilar þurfa að gefa eftir til þess að samningar náist, en það er mjög mikilvægt að í þessari lotu þá nái menn saman,“ segir Gunnar Bragi.

Hann segir allar kjaradeilur alvarlegar og oft meiri áhrif á þriðja aðila en deilendur sjálfa, til að mynda á fiskvinnslufólk og fiskútflytjendur. Í húfi séu mikilvægir markaðir og deilendur beggja vegna borðs verði að leggja töluvert á sig til að ná samningum.

„Ég held að það hljóti að vera hægt. Það getur varla verið að það sé svo mikið útistandandi að menn komist ekki yfir það, en við verðum að sjá hvað gerist á morgun. En þetta er orðið býsna alvarlegt ástand eins og þetta er í dag.“

Sjávarútvegsráðherra segir stjórnvöld fylgjast grannt með, en það sé deilenda að leysa málið. Hann segir lagasetningu á verkfallið ekki hafa verið rædda.

„Nei það hefur ekki verið rætt að setja lög á verkfallið, en eins og með allar deilur þá þurfa þær einhvern tímann að taka enda og við vonumst bara til þess að nú láti menn á þetta reyna af  alvöru og leysi þetta, það er mikið í húfi.“

 

 

Deila: