Kjarabarátta þeirra hæst launuðu

Deila:

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, spyr sig hvort að forstjórar fari næst í kjarabaráttu á eftir sjómönnum. Þessu veltir hún fyrir sér í grein í Viðskiptablaðinu í dag.

Árlega gefur Frjáls verslun út svokallað tekjublað, þar sem birtar eru tekjur þúsundir einstaklinga. Samhliða tekur útgáfufyrirtækið saman meðaltekjur 200 efstu einstaklinga í hverri starfsstétt og þær bornar saman við tekjur 200 efstu í blaði ársins á undan. Í þessum samanburði eru 10 efstu einstaklingarnir í hverjum flokki teknir úr úrtakinu þar sem þeir kunna að skekkja samanburð vegna kaupauka og bónusgreiðslna.

Þessi greining Frjálsrar verslunar kom síðast út í júlí síðastliðnum. Samkvæmt henni hækkuðu laun lækna mest á milli ára. Með­ allaun þeirra fóru úr 1,7 m.kr. í 2,1 m.kr. á mánuði, en það er hækkun um 23,5%. Hjá forstjórum hækkuðu laun úr 2,4 m.kr. í 2,6 m.kr. Næ­ stráðendur stóðu í stað með 2,2 m.kr. í laun á mánuði og starfsmenn fjármálafyrirtækja höfðu 1,9 m.kr. í laun á mánuði.

Meðaltekjur sjómanna hækkuðu úr 2,1 m.kr. í 2,3 m.kr. á mánuði á milli ára, en það er um 9,5% hækkun. Á sama tímabili hækkaði launavísitala um 9,7%.

Vafalaust er hættulegt að draga of víðtækar ályktanir af samantekt sem þessari. Hún kann þó að gefa hjálplegar vísbendingar. Þannig má ætla að verkfallsaðgerðir lækna hafi skilað þeim sem hástökkvurum listans. Meðallaun þeirra árið 2015 voru þó enn lægri en sjó­ manna. Þá vekur athygli að eina starfsstéttin sem hafði hærri laun en sjómenn árið 2015 samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar voru forstjórar fyrirtækja.

Nú liggur fyrir að sjómenn eru í verkfalli. Nái þeir fram ítrustu kröfum um launahækkun liggur beinast við að forstjórar og starfsmenn fjármálafyrirtækja fari í verkfall. Það vill jú enginn verða skilinn eftir í launaskriði þeirra hæst launuðu.

 

Deila: