Loðnuleit fyrir norðan gengur treglega

Deila:

Illa gengur að finna loðnu norður af landinu, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir frá því að Barði NK hafi verið eitt þeirra skipa sem leitaði að loðnu norðan við land á þriðjudag. „Það var leitað bæði grunnt og djúpt en menn urðu lítið varir við loðnu. Við Bjarni Ólafsson AK leituðum grunnt og sáum ekkert. Við fórum til dæmis langt inn Húnaflóann, alveg inn undir Blönduós,“ er haft eftir Þorkatli Péturssyni, skipstjóra á Barða.

Hann segir að eina loðnan sem fundist hafi hafi verið 35-38 mílur vestur af Straumsnesi, út af Ísafjarðardjúpi.

Fram kemur að Börkur NK hafi komið til Seyðisfjarðar í vikunni með 3.200 tonn af loðnu sem veiddist suður af landinu. Þá hafi Vilhelm Þorsteinsson EA landað um 3.000 tonnum.

Deila: