Samherji byggir 40 þúsund tonna laxeldi á Reykjanesi

Deila:

Kynningarfundur vegna fyrirhugaðs landeldis Samherja í Auðlindagarði við Reykjanesvirkjun var haldinn í vikunni. Samherji áformar að framleiða þar um 40 þúsund tonn af laxi á ári. Á vef Samherja er haft eftir Jóni Kjartani Jónssyni, framkvæmdastjóra Samherja fiskeldis að áætlaður kostnaður sé um 60 milljarðar króna. Byggja þurfi um 250 þúsund fermetra af húsnæði. Eldiskerin verði auk þess um 400 þúsund fermetrar. Áætlað er að starfsmenn Samherja fiskeldis á staðnum verði ujm eitt hundrað talsins, varlega áætlað.

Áætlað er að verklegar framkvæmdir við fyrsta áfanga geti hafist í loks sumars eða í haust. Á kynningarfundinum var umhverfissmatsskýrsla Eldisgarðs í Auðlindagarði HS orku kynnt.

Haft er eftir Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að ánægjulegt sé að skýrslan sé komin fram. „Þessi áform Samherja fiskeldis eru ekki aðeins stór á mælikvarða okkar hérna í Reykjanesbæ, heldur heimsins alls þegar landeldi er annars vegar. Sjálfur hef ég mikla trú á landeldi og mikil umræða á sér stað um mikilvægi hringrásarkerfis og skynsamlegrar nýtingar á orku.“

Hann bendir jafnframt á að 250 þúsund fermetrar sé á við rúmlega 30 Reykjaneshallir, sem er stærsta íþróttamannvirki Reykjanesbæjar. „Þannig að þetta er allt saman risa stórt,“ segir hann.

Meðfylgjandi er tölvuteiknuð mynd af stöðinni, sem fengin er af vef Samherja.

Sjá einnig: Samherji fiskeldi og HS orka undirrita samning vegna landeldis í Auðlindagarði á Reykjanesi

Deila: