„Það var ekkert mál að fylla skipið“

Deila:

„Nú þarf að hægja á og við höldum ekki til veiða á ný fyrr en á föstudag,“ er haft eftir Jóni Valgeirssyni, skipstjóra á Bergi á vef Síldarvinnslunnar. Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í Eyjum á sunnudag. Bæði skip voru nánast með fullfermi og var aflinn að mestu ýsa og þorskur. „Við fiskuðum í Háadýpinu og á Hólshrauni og það var ekkert mál að fylla skipið. Það er nóg af ýsu og þorski en því miður vantar ufsann. Við vorum innan við sólarhring að veiðum í túrnum,“ er haft eftir Jóni.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, hefur svipaða sögu að segja. Ýsu- og þorskveiðar gangi einsog í sögu en lítið sjáist af ufsa. „Við héldum til veiða á ný strax að löndun lokinni á sunnudaginn og áttum að ná í 20 tonn karfa og 20 tonn af ýsu. Við tókum karfaskammtinn í þremur holum. Eitt hol var tekið í Háadýpinu, eitt á Sneiðinni og eitt á Selvogsbanka. Þá sneru menn sér að ýsunni og náðu henni í fjórum holum. Eitt hol var tekið við Surt, tvö við Landsuðurhraun og eitt í Háadýpinu. Samtals varð aflinn 53 tonn. Það er ekki hægt að kvarta undan þessu,“ segir Egill Guðni.

Fram kemur í fréttinni að Gullver NS hafi landað á Seyðisfirði í gær. Aflinn hafi verið 70 tonn eftir tveggja sólarhringa veiðiferð.

Deila: