Áratugum saman fjarri fjölskyldunni hálft árið

Deila:

„Það verður mikil breyting hjá mér og konunni að búa saman í 365 daga en það hefur ekki gerst síðan ég var í vélskólanáminu ´78 -´79,“ segir Þór Ólafur Helgason, yfirvélstjóri á togaranum Júlíusi Geirmundssyni. Þór Ólafur lét af störfum á dögunum eftir að hafa starfað á Júlíusi, gamla og nýja, frá 1986.

Rætt var við Þór Ólaf á síðasta vinnudegi hans um borð í Júlíusi í Sögum af landi á Rás 1.

Á sjó í meira en fjóra áratugi

Þór Ólafur var 15 ára þegar hann byrjaði á sjó, á skaki með afa sínum. Hann kláraði vélstjórann fyrir tvítugt og byrjaði sem vélstjóri í Bolungarvík á skipum Einars Guðfinnssonar, fyrst á Heiðrúnu ÍS-4 1979 svo á Hugrúnu ÍS-7 og að lokum á Sólrúnu þar til hann réð sig á gamla Júlíus Geirmundsson árið 1986 sem var svo skipt út fyrir nýja Júlíus 1989. Þetta urðu því 36 ár á Júlíusunum tveimur sem eru í eigu Hraðfrystihússins Gunnvarar, HG, í Hnífsdal.

Hálft árið fjarri fjölskyldunni

Þór Ólafur hefur verið í skiptiplássi á Júlíusi, fjórar vikur heima og fjórar vikur í landi frá 1986, og því í raun hálft árið fjarri fjölskyldu sinni í öll þessi ár. Hann segir mikið breyst á þessum tíma og að bætt fjarskipti hafi haft mikil áhrif á sjómannslífið.

Notuðu stikkorð í samtölum þegar allir voru að hlusta

„Það er mikill munur frá því þegar þú þurftir að fara upp í brú og kalla í loftskeytastöðina og biðja um samband við einhvern aðila í landi og svo gátu allir hlustað,“ segir Þór Ólafur. „Við notuðum allskyns stikkorð ef við vildum ekki að fólk næði því hvað við værum að tala um,“ segir hann. Önnur skip gátu þá hlustað á samskiptin en einnig var lengi vel hægt að hlusta á samskipti skipa á útvörpum, og var rásin kölluð Bátabylgjan. Nú tekurðu bara upp símann og hringir í fjölskylduna þegar hentar.

Getur nú betur fylgst með fjölskyldunni í landi

Þetta breyttist með NMT símum undir lok níunda áratugarins en var þó með takmarkaðri drægni. Svo hefur þetta þróast smátt og smátt til hins betra. „Nú erum við komin með gott tölvusamband í gegnum gervihnött sem skiptist í 3G þegar við erum nær landi. Þannig að maður getur verið með spjaldið sitt eða símann og spjallað á messenger og sent og skoðað myndir. Það er mjög skemmtilegt að sjá hvað barnabörnin eru að gera. Og í góðu sambandi er jafnvel hægt að sjá myndbrot,“ segir Þór Ólafur. Þótt Þór Ólafur hafi óhjákvæmilega misst af ýmsum uppákomum og afmælum hjá fjölskyldunni á þessum tíma þá segir hann að mánuðirnir í landi hafi jafnan verið góðir.

Búinn að kaupa sér rútu

Þór Ólafur verður 63 ára í haust og er sáttur við að koma í land. Hann er búinn að kaupa sér rútu og við tekur nýtt fjölskyldulíf þar sem hann getur varið öllum dögum ársins með konu sinni og fjölskyldu. „Ég er alveg sáttur.“

Deila: