Góð kolmunnaveiði vestur af syðsta odda Írlands

Deila:

,,Það er fínasta veiði og það má segja að erfiðast sé að skammta sér aflann. Það er mjög gott að fá ekki meira en 300 til 400 tonn í holi og mesta hættan er sú að þegar maður reynir að skammta sér til tekið magn að þá verði aflinn minni,“ sagði Hjalti Einarsson, skipstjóri á Víkingi AK, er rætt var við hann af heimasíðu HB Granda.

Víkingur er á kolmunnaveiðum og segir Hjalti að fyrsta hol veiðiferðarinnar hafi verið tekið sl. sunnudag. Er rætt var við Hjalta var verið að undirbúa síðsta fyrirhugaða holið en að sögn skipstjórans verður að koma í ljós hvort það gangi eftir.

,,Veiðin er best í dimmunni og þess eru dæmi að menn hafi fengið mjög góð hol á örstuttum tíma þegar togað er í góðu lóði. Hvort það gengur eftir hjá okkur verður að koma í ljós.“

Samkvæmt upplýsingum Hjalta hófust veiðarnar í þessum túr mun norðar en Víkingur er nú.

,,Við vorum í veiði til að byrja með en svo tregaðist hún og við sigldum um 100 mílur beint í suður. Hér erum við beint vestur af syðsta odda Írlands og veiðin hefur verið góð. Skipunum hefur fækkað á slóðinni eins og oft gerist þegar veiðin er góð. Fiskurinn er ágætur og stærri en sá kolmunni sem við höfum oft fengið við Færeyjar,“ segir Hjalti Einarsson.

 

 

Deila: