Verðmæti ferskra afurða jókst

Deila:

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 28,5 milljörðum króna í apríl samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum um vöruskipti í mánuðinum, sem Hagstofan hefur birt. Um er að ræða 2% aukningu miðað við april í fyrra, þegar gengi krónunnar var tæplega 1% hærra nú í apríl en í fyrra. Aukningin í erlendri mynt er rúmlega 1%.

Þetta kemur fram í greiningu Radarsins. Fram kemur að veruleg aukning sé í útflutningsverðmæti ferskra afurða og svo saltaðra og þurrkaðra afurða. Þar segir enn fremur:

„Þannig nam útflutningsverðmæti ferskra afurða 7,7 milljörðum króna í apríl og jókst um tæp 38% á milli ára á föstu gengi. Ferskar afurðir voru þar með um 27% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild í mánuðinum, en það hlutfall hefur aldrei verið svo hátt í apríl. Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða nam 5,1 milljarði króna í apríl og jókst um 27% á milli ára á sama kvarða. Þá var rúmlega 5% aukning í útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“, en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn. Þar sem um fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar ræðir í apríl liggja ekki fyrir upplýsingar um verðmæti niður á einstaka fisktegundir í mánuðinum. Gera má þó ráð fyrir að nokkur útflutningur sé á loðnuhrognum í apríl frá síðustu loðnuvertíð, líkt og verið hefur undanfarna mánuði.”

Hins vegar dróst útflutningsverðmæti allra annarra afurðaflokka saman á milli ára í apríl. Útflutningsverðmæti heilfrysts fisks dróst saman um 35% á milli ára á föstu gengi. Það má að sögn rekja til loðnubrests. Samdráttur varð einnig í verðmæti frystra flaka, fiskimjöls og lýsis. Verðmæti útflutnings á rækju dróst saman um 61% á föstu gengi.

Sjá nánar hér.

Deila: