Sleppti 160.000 laxaseiðum í Tálknafjörð

Deila:

Níels Ársælsson útgerðarmaður segist hafa sleppt 160 þúsund laxaseiðum af norskum stofni í sjó við Gileyri á Tálknafirði árið 2002. Frá þessu var greint á Stöð“ og í Fréttablaðinu.

Níels vildi ekki ræða við fréttastofu vegna málsins. Líkt og fjallað hefur verið um gefa bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar Hafrannsóknastofnunar skýr merki um erfðablöndun í tveimur laxastofnun í Botnsá og Sunndalsá en báðar árnar eru á svæðinu.

Guðni Guðbergsson, forstöðumaður ferskvatnslífríkissviðs, segir mögulegt að áhrifa sleppingarinnar sé þarna að gæta. Fara þurfi aftur yfir gögnin í ljósi nýrra upplýsinga.

Árið 2001 keypti félagið Eyrarfiskeldi hf., í eigu Níels Ársælssonar, um 160 þúsund laxaseiði af norskum stofni. Þau komu til eldishússins við Gileyri á Tálknafirði í september 2001 og áttu að fara í sjókvíar sumarið eftir. Slátra átti fiskinum í desember 2003 og gert var ráð fyrir að aflinn yrði um 600 til 700 tonn.

Þessar áætlanir urðu að engu þegar norskur samstarfsaðili Eyrar varð gjaldþrota. Þrátt fyrir tilraunir fékk félagið hvorki lánsfjármagn né nýtt hlutafé til kaupa á eldiskvíum. Um mitt ár 2002 þraut fjármagnið og eftir að laxaseiðin höfðu verið í þriggja mánaða svelti ákvað Níels að hleypa seiðunum 160 þúsund í sjó við Gileyri í gegnum botnlokur. Seiðin voru um 350 til 600 grömm þegar þeim var sleppt.

„Ef þetta hafa verið fiskar sem voru seiði 2001 þá er býsna langt síðan og þetta er þá komið yfir á aðra kynslóð. Ef ég veit rétt hafa þessir fiskar verið af fyrstu kynslóð. En í ljósi þessa þarf að fara yfir þau gögn aftur,“ segir Guðni hjá Hafró. Hann segir einnig mögulegt að efla þurfi eftirlit með laxeldi hér á landi fyrst menn komist upp með að sleppa slíku magni af seiðum án þess að eftirlitsaðilar verði þess varir. Fiskistofa hafði ekki heyrt af málinu þegar fréttastofa hafði samband en segir það grafalvarlegt. Háttsemin varði nokkur ákvæði laga um fiskeldi og geta brot af þessu tagi varðað fangelsisvist.

Deila: