Lögum um veiðigjald verði breytt
Stjórn Landssambands smábátaeigenda skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér nú þegar fyrir breytingu á lögum um veiðigjald. Á fundi stjórnar LS föstudaginn 28. júlí sl. var mikil og þung umræða um þá fordæmalausu hækkun á veiðigjaldi sem ráðherra hefur tilkynnt með reglugerð. Samkvæmt henni hækkar veiðigjald á þorski og ýsu mest, en þær tegundir bera yfir 80% af aflaverðmæti smábáta.
Umræðunni lauk með samþykkt ályktunar sem beint er til ráðherra. Í greinargerð með ályktuninni segir svo:
„1. september næstkomandi hækkar veiðigjald helstu tegunda um tugi prósenta. Þorskur og ýsa slá þar öll met, þorskurinn hækkar um 107% og ýsan um 127%.
Stjórn LS vekur athygli á skyldu sjávarútvegsráðherra að standa vörð um stöðu sjávarútvegsins þar sem markmiðið er að efla hann og greinin verði áfram sú sterka stoð sem þjóðin hefur getað treyst á sem höfuðatvinnuveg landsins.
Sjá mátti fyrir hina gríðarlegu hækkun sem greinin hefði mætt af æðruleysi hefðu rekstrarskilyrði verið þau sömu og á árinu 2015, sem er viðmiðunarár gjaldsins. Það er hins vegar ekki á vísan að róa á því sviði þegar við náttúrulegar sveiflur í veiðistofnum bætist við sterkt gengi krónunnar og tugaprósenta lækkun fiskverðs. Útgerð smábáta stendur í þeim sporum að verði engar breytingar gerðar á gjaldinu mun fjöldi útgerða ekki hafa forsendur til að hefja veiðar 1. september nk.
Stjórn LS skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér nú þegar fyrir breytingu á lögum um veiðigjald. Hæg eru heimatökin þar sem alþingismenn í öllum flokkum og hagsmunasamtök hafa sagt hækkunina koma sér einkar illa fyrir „litlar og meðalstórar útgerðir“. Verði ekkert að gert munu skilyrðin auk rekstrarstöðvunar leiða til áframhaldandi samþjöppunar veiðiheimilda og fábreyttari útgerðaflóru.
LS hafnar þeim málflutningi að aðilar hafi átt að sjá þetta fyrir og leggja til hliðar. Smábátaeigendur glíma enn við gríðarlega háa greiðslubyrði lána vegna afleiðinga Hrunsins. Öll endurnýjun hefur því setið á hakanum fyrir skuldbindingum. Auk veiðigjaldsins kemur hrun fiskverðs af fullum þunga á þessa viðkvæmu útgerð og ekkert lát á smánarlegri hækkun á veiðiheimildum í þorski.
LS ítrekar fyrri samþykktir um að veiðigjald verði innheimt af handhöfum aflahlutdeilda eins og upphaflega var gert, en ekki þeim sem veiða, og ákvæði um afslátt vegna vaxtaberandi skulda verði framlengt. Bæði atriðin skipta smábátaeigendur miklu máli.
Auk þessara þátta er rétt að velta fyrir sér fleiri atriðum sem snerta veiðigjald. Í dag er sá háttur hafður á að allir sem greiða veiðigjald fá 20% afslátt af reikningi að upphæð 4,5 milljónir og 15% afslátt af sömu upphæð umfram það. Til að gæta sanngirnis milli smábátaeigenda og stærri útgerða leggur LS hér til annað fyrirkomulag sem felst í að veiðigjald verði þrepaskipt. Útfærslan yrði á þá leið að þeir sem hafa minna en 50 tonn í varanlegum þorskígildum greiði fjórðung af fullu gjaldi. Hlutfallið hækki svo með heimildum sem eru umfram ákveðin þrep upp að 2.000 þorskígildum. Fyrir heimildir umfram það magn bæri að greiða álag á veiðigjald þannig að gjaldið skili sömu tekjum og gert er ráð fyrir.
Með breytingunni mundi draga stórlega úr samþjöppun, samkeppnisforskot sem stærstu útgerðirnar hafa á þær minni mundi minnka og síðast en ekki síst að aðferðin væri leið til sanngjarnari gjaldtöku.“