Beitir með loðnu úr „kartöflugarðinum”

Deila:

Þegar Beitir NK var á útleið að lokinni löndun í Neskaupstað í gær rakst hann á myndarlegar loðnulóðningar á Norðfjarðarflóanum. Nokkur bræla var þegar þetta gerðist en ákveðið var að bíða þar til veðrið gengi niður og freista þess að kasta. Tómas Kárason skipstjóri sagði í samtali við heimsíðu SVN, að þetta hefði litið vel út og mönnum hefði þótt spennandi að fá loðnufarm í kartöflugarðinum heima hjá sér.

„Þetta voru töluverðar lóðningar og synd að geta ekki kastað strax. Þegar veðrið gekk niður var megnið af loðnunni gengið upp á grynningarnar norður úr Norðfjarðarhorni þannig að við gátum bara kastað á lítinn hluta af þessu og síðan á smærri torfur í flóanum. Við köstuðum fjórum sinnum, fengum 370 tonn í fyrsta kasti en mun minna í hinum þremur. Alls fengum við þarna um 550 tonn og komum inn til löndunar fyrir miðnætti,“ sagði Tómas. „Ég hef aldrei heyrt um að kastað hafi verið á loðnu svona innarlega á flóanum. Norskt skip kastaði á loðnu í mynni flóans fyrr í þessum mánuði og fékk 70 tonn, en við vorum langt inni á flóa,“ sagði Tómas að lokum.

Beitir á Norðfjarðarflóa

Jón Már Jónsson, framkvæmdastjóri landvinnslu hjá Síldarvinnslunni, sagði að loðnan sem Beitir kom með hafi hentað vel til frystingar og ferskara hráefni væri vart hægt að hugsa sér. Loðnan væri heldur smærri en sú sem fæst suður af landinu, en hún væri að öðru leyti ágæt, átulaus og hrognafyllingin 22%. Strax og Beitir kom að landi hófst löndun á aflanum og er hann frystur á Japan.

Af öðrum loðnuskipum Síldarvinnslunnar er það að frétta að Börkur NK fyllti í gærkvöldi og er á leið til Seyðisfjarðar með um 2.500 tonn. Bjarni Ólafsson AK er síðan  á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 1.600 tonn sem hann fékk út af Alviðru.

Myndirnar með fréttinni tók Ísak Fannar Sigurðsson.
 

Deila: