CNN-menn heilluðust af saltfiski Einsa kalda

Deila:

Útsendarar fréttastöðvarinnar CNN í Portúgal settu punkt aftan við afar vel heppnaða heimsókn til Vestmannaeyja með því að senda dróna á loft í morgun og mynda Heimaey og umhverfi allt úr lofti í sólskini og björtu veðri.

Loftmyndirnar bættust við í mikið og áhugavert safn myndskeiða og efnis sem fréttamaðurinn António José Leite og tökumaðurinn Hélder Tavares hafa sankað að sér í Eyjum undanfarna daga.

Saltfiskur var efstur á lista viðfangsefna þegar þeir komu hingað. CNN-félagarnir vildu rekja sig eftir ferli þorsksins frá því hann er dreginn úr sjó þar til starfsmenn Vinnslustöðvarinnar ganga frá honum sem saltfiski á brettum, tilbúnum til ferðalags til Portúgals. Þeir rekja slóðina svo áfram í Portúgal þegar starfsmenn Grupeixe, fyrirtækis í eigu Vinnslustöðvarinnar þar ytra, taka við fiskinum, vinna úr honum vörur fyrir neytendamarkað í stórmörkuðum eða koma fiskinum beint til veitingahúsa.

Reyndar mynduðu gestirnir ákveðna útgáfu af upphafi og endi saltfiskferlis þorsksins á nokkrum klukkustundum í gær. Fyrst með því að fara á sjó á Þór, björgunarbáti Björgunarfélags Vestmannaeyja, sem fór með þá á miðin við Eyjar þar sem áhöfnin á Kap VE dró net úr sjó og hver boldangsþorskurinn eftir annan birtist úr hafdjúpinu.

Ef til vill sá CNN-liðið þarna með eigin augum fisk sem verður borinn á veisluborð í Portúgal um jólin! Það gæti bara meira en vel verið.

 Svo var komið að hinum enda málsins, saltfiski sem Einsi kaldi matreiddi eins og honum einum er lagið og bar á borð fyrir gesti sína. CNN tók að sjálfsögðu upp aðdraganda máltíðarinnar í eldhúsi stjörnukokksins og víst er að áhorfendur sjónvarpsstöðvarinnar í Portúgal munu fylgjast með þessum hluta Íslandsferðarinnar af óskiptri athygli.

António fréttamaður kvað upp úr með að þessi saltfiskréttur væri sá besti sem hann hefði bragðað um dagana! Það teljast nú engin smáræðis meðmæli frá gesti af slóðum þar sem saltfiskur er í hávegum hafður og skráðir saltfiskréttir eru álíka margir og dagar almanaksársins sinnum þrír.

Nærstaddir báðu António í öllum bænum að láta nú ekki út úr sér í CNN að hann hefði fengið betri saltfiskrétt hjá Einsa kalda í Eyjum en nokkru sinni á heimaslóðum. Betra að móðga nú engan í markaðslandinu, Portúgal …

 Sjónvarpsrisinn CNN sendir út á tveimur rásum í Portúgal allan sólarhringinn, annars vegar  fjölþjóðlegu rásina CNN International og hins vegar CNN Portugal, sem sendir út fréttir og fréttatengt efni linnulaust á portúgölsku.

Áhorfið á CNN Portugal hefur rokið upp eftir að árásarstyrjöld Rússa á Úkraínu brast á. Mun fleiri horfa á fréttir og fréttatengt efni CNN í Portúgal en á fréttatíma helstu keppinauta, ríkisrekins sjónvarps á tveimur rásum.

Áhugavert er að hafa þetta í huga þegar fyrir liggur að upptekið efni frá Vestmannaeyjum verður sent út dag eftir dag í fréttum og fréttatengdum þáttum CNN og það í aðdraganda sjálfrar páskahátíðarinnar þegar Portúgalar bera saltfisk á borð á langflestum heimum landsins og/eða fá sér saltfisk á veitingahúsi.

Umfjöllun um saltfisk frá Vinnslustöðinni/ Grupeixe kemur því á besta tíma og Portúgalar kynnast ýmsu öðru merkilegu sem frá António og Hélder kemur. Vestmannaeyjar verða örugglega umræðuefni við mörg páskaborð í Portúgal í ár!

Einsi kaldi, Einar Björn Árnason, eigandi og yfirmatreiðslumeistari veitingastaðarins og veisluþjónustunnar Einsa kalda, öðlaðist nýja sýn á saltfisk sem hráefni og og möguleika í meðferð þess og eldamennsku í ferð til Portúgals á vegum Íslandsstofu nokkru fyrir Covid.  Einar Björn og Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar, rugluðu svo saman saltfiskreitum sínum með þeim árangri að saltfiskur er næstvinsælasti rétturinn á matseðli Einsa kalda. Áður hreyfðist þessi réttur varla.

Sverrir er mikill saltfiskunnandi og saltfiskpælari. Hann þreifaði lengi fyrir sér með að útvatna saltfisk og lét Einar hafa fisk til að elda fyrir hóp erlendra fiskkaupenda sem kom til Vestmannaeyja. Þá hófst ævintýrið og í framhaldinu tók Vinnslustöðin að sér að útvatna saltfisk eftir forskrift Sverris fyrir veitingahúsið.

Sverrir var að sjálfsögðu meðal gesta í CNN-hófinu í gærkvöld. Þar voru líka framkvæmdastjórar VSV og Grupeixe, Binni og Nuno. Og Einsi sjálfur heiðraði samkvæmið með því að setjast til borðs með gestum sínum og naut þess greinilega ekki síður en að búa til þennan líka fína veislumat sem heillaði CNN-gestina.

Deila: