Mettúr hjá Blængi

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað á mánudag að loknum mettúr í Barentshafinu. Skipið var 40 daga á sjó, höfn í höfn, og var hafist handa við að landa úr því í gærmorgun. Afli skipsins er 1175 tonn upp úr sjó, þar af 1005 tonn þorskur. Verðmæti aflans er 635 milljónir króna (CIF) og munu það vera mestu verðmæti sem Síldarvinnsluskip hefur komið með að landi úr einni veiðiferð.

Hásetahluturinn úr túrnum er um 6 milljónir króna. Skipstjóri á Blængi í veiðiferðinni var Sigurður Hörður Kristjánsson og segir hann að túrinn hafi gengið vel að flestu leyti en þó hafi veður truflað um tíma. „Við veiddum innan norskrar lögsögu og hófum veiðarnar á Fuglabankanum og síðan var veitt á Nysleppen og Líksnaganum. Um miðjan túr færðum við okkur og veiddum eftir það á Garðarsbanka og á Fingrinum austan við Bjarnarey. Veðrið var dálítið rysjótt og lágum við til dæmis í vari við Bjarnarey í á annan sólarhring. Veiðin á þessum slóðum var ekkert sérstaklega góð miðað við það sem ég hef áður kynnst en fiskverð er hátt um þessar mundir og verðmætin því mikil. Við tókum í notkun nýtt troll frá Hermanni Guðmundssyni í Hampiðjunni í þessum túr og það reyndist einstaklega vel. Við höfum lengi notað troll frá Hermanni með góðum árangri. Þetta nýja troll reyndist svo vel að við vorum ekki miklir eftirbátar tveggja trolla togaranna sem þarna voru. Trollin frá Hermanni eru kunn og ávallt er verið að þróa þau og bæta. Annars má segja að þessi túr hafi verið hinn ánægjulegasti. Það er hörkumannskapur um borð og mórallinn afar góður. Það þarf dugnaðarmenn í túra eins og þennan og þeir eru svo sannarlega til staðar á Blængi,“ segir Sigurður Hörður í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Deila: