Styttist í Storminn

Deila:

Nú styttist í að línubáturinn Stormur HF haldi frá Póllandi heim til Íslands eftir endurbyggingu á skipsskrokki sem keyptur var á Nýfundnalandi. Skipinu hefur verið breytt svo mikið að segja má að um nýsmíði sé að ræða.

Skipið með rafknúna skrúfu, „dísel electric“ og dregur línuna í gegnum síðuna. Hvort tveggja er nýjung í útgerð íslenskra línubáta, en þekkt annars staðar í heiminum. Skipið er í eigu Storm Seafood í Hafnarfirði.

Axel Jónsson, skipstjóri, hefur haft umsjón með kaupunum á skipinu og breytingum á því ytra. „Þetta verður nýsmíði,“ segir hann í samtali við kvotinn.is,  en við keyptum skrokk í Nýfundnalandi, sem var 23 metrar að lengd og lengdum hann um 22 metra og gerðum bát úr honum. Tæplega 46 metra langan og 9,20 á breidd, 680 tonn. Þetta var bara skrokkur, en er nú orðinn alvöru skip, vistvænn alvöru barkur,“ sagði Axel í samtali við kvótann fyrr á árinu.

„Svo er línan dregin í gegnum síðuna á honum, sem er nýjung á Íslandi, en þekkist annars staðar. Allt sem við erum að gera er nýjung á Íslandi þó útgerðir í öðrum löndum hafi farið þessa leið áður. Skipið er þá alveg lokað og enginn á rúllu í lúgu á síðunni. Þegar fiskurinn er kominn inn á dekkið er þetta svo eins og hjá venjulegum línubátum.“

Stormur er með nýjustu gerð af Mustad beitningarvél með 50.000 króka. Báturinn er líka græjaður fyrir net og ætlunin að fara á grálúðunet.

„Skipið er fullt af nýjungum, en ekkert nýtt sem við erum að finna upp. Þetta hafa menn gert allt áður en við erum að sameina það besta sem við þekkjum í einum bát. Það þarf alltaf einhvern vitleysing í hverja verstöð til að það verði einhver framþróun,“ sagði Axel Jónsson.

 

Deila: