Loðnan veiðist víða
Um þessar mundir veiðist loðna víða við suður- og suðausturströnd landsins. Það eru yfir 200 sjómílur frá vestasta veiðisvæðinu til hins austasta. Helst er veitt á þremur svæðum. Hluti íslenska flotans er að veiðum út af Þorlákshöfn og þar vestur af og annar hluti í Fjallasjónum og austur við Vík. Norski flotinn er hins vegar að veiða í Hvalbakshalli og á Herðablaðinu út af suðausturlandi. Hrognafylling loðnunnar er misjöfn eftir veiðisvæðum. Vestast er hrognafyllingin 16-18%, í Fjallasjónum og austur við Vík er hún 14-16% en úti af suðausturlandinu er hún 11-12%. Um þessar mundir er loðna fryst af krafti á Asíumarkað og gengur frystingin vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Börkur NK kom til Neskaupstaðar í nótt með 2.600 tonn af loðnu og hófst þegar löndun úr skipinu í fiskiðjuverið. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar loðnan hefði fengist. „Við fengum 2.000 tonn vestan við Vestmannaeyjar og síðan 600 tonn austur við Vík. Þetta er fallegasta loðna og hrognafyllingin 16-18% í loðnunni sem fékkst vestast en heldur minni í því sem fékkst austar. Mér finnst þessi loðnuvertíð vera sérstök. Loðnan gengur dreifðari en oft áður og veiðin fer víða fram. Köstin sem fást eru gjarnan frá 400 tonnum og niður í 100 eða jafnvel 50 tonn þannig að það er ærin fyrirhöfn að fá í skipin. Á móti kemur að loðna veiðist mjög víða. Að öllu eðlilegu ætti að vera mokveiði núna og stærðarinnar köst. Reyndustu menn líkja þessari vertíð við vertíðina 2005 en ég hef ekki upplifað svona loðnuvertíð áður. Það eru spennandi tímar framundan því nú fer að líða að hrognavinnslu. Hún gæti hafist eftir vikutíma eða svo. Nú er veðurfarið töluvert áhyggjuefni og samkvæmt spánni er heldur erfið vika framundan veðurfarslega. Það skiptir gríðarlega miklu máli að veður sé gott þegar hrognatíminn hefst því það er mikilvægasti og verðmætasti hluti vertíðarinnar,“ segir Hjörvar
Börkur NK að landa loðnu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Guðlaugur Björn Birgisson