Skipið ofhlaðið og með viðvarandi stjórnborðshalla
Annar björgunarbáturinn um borð í Jóni Hákoni, sem fórst á Vestfjarðarmiðum í júlí 2015, virkaði ekki. Hinn björgunarbáturinn virðist hafa fest undir skipinu og því ekki komið upp á yfirborðið þegar Jón Hákon sökk. Tíu mínútur liðu frá því þremur skipverjum var bjargað af kili skipsins þar til það var sokkið. Þetta er ein af niðurstöðu rannsóknarnefndar samgönguslysa um atburðinn er Jón Hákon BA sökk. Frá þessu var sagt á ruv.is
Hvorugur björgunarbáturinn kom upp
Jón Hákon var við dragnótaveiðar úti fyrir Aðalvík í blíðskaparveðri þegar sjór flæddi inn fyrir borðstokkinn. Við þetta lagðist Jón Hákon á hliðina og hvolfdi svo. Einn fórst en þrír skipverjar náðu að komast upp á kjölinn og halda sér þar í um klukkustund þangað til hjálp barst. Tíu mínútum síðar var Jón Hákon sokkinn. Það er niðurstaða Rannsóknarnefndar sjóslysa að skipið hafi verið ofhlaðið og með viðvarandi stjórnborðshalla.
Hvorugur björgunarbáturinn um borð skilaði sér upp á yfirborðið þegar bátnum hvolfdi. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að sjálfvirkur sleppibúnaður björgunarbátanna sé hannaður þannig að hann sleppi á fjögurra til sex metra dýpi. Þegar skipinu hvolfdi voru sjósleppilokarnir á innan við fjögurra metra dýpi, og komu því ekki upp á yfirborðið. Eftir að Jón Hákon sökk er talið að minni björgunarbáturinn hafi virkað, en hann haldist undir skipinu.
Líklega sami kólfur í um 30 ár
Búnaður stærri björgunarbátsins virkaði ekki. Nefndin telur að skakkt átak á milli lykkjunnar og kólfsins í sleppilokanum hafi komið í veg fyrir að búnaðurinn virkaði. Samkvæmt gildandi reglum á að skipta út sleppilokum á tveggja ára fresti en við þá aðgerð hefur ekki verið skipt um kólfinn. Ekki komu fram upplýsingar um að breytingar hafi verið gerðar á sjósetningarbúnaði skipsins frá því að hann var settur um borð árið 1988 og má því gera ráð fyrir að sami kólfur hafi verið í notkun í tæplega 30 ár, segir í skýrslunni. Engar merkingar voru á sjósetningabúnaðinum, hvorki framleiðslunúmer eða framleiðsluár.
Eftir að Jón Hákon var dreginn á land var sjósetningabúnaðurinn prófaður með því að toga í fjarlosunarvírinn í stýrishúsi. Togað var nokkrum sinnum í handfangið. Losunarhnappurinn gekk inn á sleppilokanum en skotgálginn opnaðist ekki fyrr en slegið var duglega með hamri í kólfinn.
Nefndin átelur harðlega að ekki sé fylgt eftir kröfum um virkniprófun björgunarbúnaðar á fimm ára fresti, en samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu hefur þessi prófun aldrei komist á. Í skýrslunni er vitnað í skoðunaraðila, sem hefur skoðað sleppigálga björgunarbáta í 25 ár og aldrei skipt um kólfa í þeim gálgum sem hann skoðaði. Í svari Samgöngustofu til nefndarinnar segir að prófunin sé talin of dýr og hættuleg. „Ástæður þess að ekki hefur verið gengið eftir að framkvæma þessa prófun eru að rök lágu til að þessi prófunin væri dýr og gæti verið hættuleg, og gæfi ekki markverðar upplýsingar umfram það sem venjuleg skoðun myndi leiða í ljós.
Skýrsluna í heild má sjá á slóðinni hér að neðan:
http://rnsa.is/media/3619/2015-119s072-jon-hakon-ba-60.pdf