Ljósafell á ralli

Deila:

Undanfarna daga hefur Ljósafell verið á hinu svokallaða togararalli á vegum  Hafrannsóknastofnunar. Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar segir að  helsu markmið með rallinu sé: “að fylgjast með breytingum á stofnstærðum, aldurssamsetningu, fæðu, ástandi og útbreiðslu botnfisktegunda við landið. Einnig verður sýnum safnað vegna ýmissa rannsókna, t.d. á mengunarefnum í sjávarfangi. Erfðasýni verða tekin úr nokkrum fisktegundum, athuganir gerðar á botndýrum og mat lagt á magn ýmiskonar rusls á sjávarbotni”.

Hafa rannsóknatúrar af þessu tagi verið farnir á vegum Hafrannsóknarstofnunar síðan 1985 og byggja kvótastærðir næsta fiskveiðiárs á þeim niðurstöðum sem þar fást.

Ljósafellið landaði í Reykjavík fimmtudaginn 7.mars, 85 tonnum af blönduðum afla en þó mestmegnis karfa.  Hjálmar Sigurjónsson var skipstjóri í þessum túr og bar hann sig vel þegar greinarhöfundur Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði hafði uppá honum. Hann sagði að allt hefði gengið vel og það væri búið að toga á 81 stöð af 147.  Og þegar hann var spurður að því hvort að aflinn sem Ljósfell hefur fengið í rallinu gæfi vísbendingar til aukins þorskkvóta á næsta kvótaári, hló hann við og sagði það ekki vera í sínum verkahring að áætla neitt í þeim efnum. „Við erum með 7 einstaklinga frá Hafrannsókastofnun um borð sem safna upplýsingum og síðan lesa úr þeim vísindamenn og aðrir sérfræðingar” bætti Hjálmar við.

Ljósafell fór aftur af stað sama kvöld og mun þá ljúka við að toga í þeim hólfum sem eftir eru. „Til gamans fylgir hér með mynd af þeirri leið sem Ljósafell hefur farið og þegar myndin er skoðuð virðist nokkuð augljóst af hverju þessir rannsóknaleiðangrar hafa fengið viðurnefnið “rall” því þetta lítur út fyrir að vera óttalegt “rally”, segir á heimasíðu LVF.

 

Deila: