Varað við veiðum nærri sæstrengjum
Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þurftu tvívegis að vara skipstjórnarmenn skipa við sem voru á veiðum nærri sæstrengjum um síðustu helgi
Landhelgisgæslan telur rétt að árétta að sjófarendur skuli sýna aðgæslu og gæta varúðar þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó. Í 71. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 er skýrt kveðið á um að bannað sé að veiða með veiðarfærum, sem fest eru í botni eða eru dregin eftir honum, svo sem netum, botnvörpum og þess háttar, á svæðum þar sem fjarskiptastrengir liggja. Svæði þetta skal vera mílufjórðungs belti hvorum megin við fjarskiptastrenginn. Hér er miðað við sjómílu sem er samtals 1852 metrar.
Rétt er að geta þess að sæstrengir gegna veigamiklu hlutverk í samskiptum þjóðarinnar við helstu útflutningslönd sín. Því er afar mikilvægt að sjófarendur fari með gát í námunda við strengina.
Mjög dýrt er að bæta skemmdir á þeim og er viðgerð alfarið á kostnað þess sem tjóninu veldur. Þar sem strengirnir eru spennufæddir getur snerting við þá valdið manntjóni, bæði raflosti og brunasárum.
Nánari upplýsingar um legu fjarskiptastrengja má finna á heimasíðu Farice og á heimasíðu Mílu.