Þjóðhagslega hagkvæmt að veiða hvali

Deila:

„Gögn benda ekki til að hvalveiðar hafi slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf. Sér í lagi er ekki að finna marktækar vísbendingar um að hvalveiðar dragi úr ferðum útlendinga hingað að neinu ráði. Umhverfissamtök, sérstaklega Grænfriðungar, löttu fólk til að ferðast til Íslands á meðan Íslendingar veiddu hvali í vísindaskyni á seinni hluta 9. áratugar 20. aldar.

En þrátt fyrir mikla herferð gegn Íslandi fjölgaði erlendum ferðamönnum hér um 34% frá 1986 til 1990, fjórum prósentum meira en í Bretlandi á sama tíma. Ekki þarf að rifja upp fjölgun erlendra ferðamanna eftir 2009. Ekki er þar heldur að finna augljós merki um að hvalveiðar fæli fólk héðan. Ekki er heldur að sjá að hvalveiðar hafi dregið úr áhuga á hvalaskoðun hér við land. Stærsti hluti hvalveiða við Ísland eru á langreyði, langt utan hvalaskoðunarsvæða.“

Svo segir í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða.

Síðastliðið vor óskaði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að hún myndi meta þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Hagfræðistofnun hefur nú skilað skýrslu til ráðherra og er meginniðurstaða hennar að „Þegar allt er skoðað virðast hvalveiðar vera hluti af hagkvæmri nýtingu náttúruauðlinda landsmanna. Rök hníga til þess að hagkvæmt sé fyrir þjóðarhag að haldið verði áfram að veiða hvali.“

Hagfræðistofnun kynnti niðurstöður skýrslunnar fyrir ráðherra og hagsmunaaðilum á fundi í gær.

Við gerð skýrslunnar leit Hagfræðistofnun til fjölmargra þátta, s.s. afkomu og umsvifa af hvalveiðum og hvalaskoðun, áhrif hvalveiða á aðra nytjastofna og efnahagsleg áhrif m.a. á ferðaþjónustu og útflutningsgreinar.

Þetta er önnur skýrslan sem Hagfræðistofnun HÍ vinnur um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Sú fyrri kom út árið 2010 og voru niðurstöður hennar í öllum meginatriðum sambærilegar við niðurstöður nýútgefinnar skýrslu.

Meðfylgjandi er jafnframt greinargerð Hafrannsóknastofnunar um mat á fæðuþörf hvala og vægi þeirra í lífríki sjávar hér við land.

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða

Greinargerð Hafrannsóknastofnunar um mat á fæðuþörf hvala og vægi þeirra í lífríki sjávar

 

Deila: