Loðnan – lítill fiskur en áhrifaríkur

Deila:

Um þessar mundir er verið að leita loðnu og margir bíða spenntir eftir niðurstöðu. „Hafrannsóknaskip ásamt uppsjávarskipunum Berki NK og Aðalsteini Jónssyni SU annast leitina og ef hún skilar ekki skýrum árangri verður án efa leitað á ný fljótlega. Það er gjarnan ákveðin spenna tengd loðnunni um þetta leyti árs og er það ágætt tilefni til að rifja upp sögu loðnuveiða með nokkurri áherslu á áhrif þeirra á starfsemi Síldarvinnslunnar,“ segir á vef fyrirtækisins.

  • Fullyrt er að Jakob Jakobsson útgerðarmaður á Strönd í Neskaupstað hafi verið fyrstur manna á Íslandi til að hagnýta sér loðnu. Hóf hann að nota loðnu sem beitu á vertíðum á Hornafirði um 1920. Fyrst þegar loðnu var beitt á Hornafirði var hún týnd af fjörum en þegar menn gerðu sér grein fyrir gildi hennar komu menn sér upp litlum fyrirdráttarnótum til að veiða hana í við háflæði. Almennt var farið að beita loðnu á Hornafirði árið 1924.
  • Þegar Austfirðingar hófu að stunda veiðar á vetrarvertíðum frá Sandgerði hófu þeir einnig að nota loðnu sem beitu þar. Mun Ölver Guðmundsson útgerðarmaður í Neskaupstað hafa rutt brautina í þessum efnum. Notaði hann í fyrstu háf sem dreginn var í sjónum til að veiða loðnuna í og fljótlega var almennt farið að nota loðnu sem beitu á Suðurnesjum. Á vertíðinni 1938 tók Ölver Guðmundsson vélbátinn Frey NK á leigu á meðan loðnan gekk fyrir Reykjanes í þeim tilgangi að láta bátinn veiða loðnu í litla herpinót. Gengu veiðarnar vel og seldi Ölver þá loðnu sem Freyr veiddi og hann hafði ekki not fyrir sjálfur. Því má segja að Freyr hafi verið fyrsta loðnuveiðiskip Norðfirðinga.

Freyr NK veiddi loðnu í herpinót árið 1938. Ljósm: Guðmundur Bjarnason frá Gerðisstekk

  • Seint á fimmta áratug 20. aldarinnar var efnt til tilraunaveiða á loðnu með það í huga að nýta hana til framleiðslu á mjöli og lýsi. Fyrir utan tilraunaveiðarnar hófst loðnuveiði með slíka framleiðslu í huga árið 1963 en þær fóru hægt af stað. Fyrsti Norðfjarðarbáturinn sem hélt til slíkra veiða var Gullfaxi NK en það var veturinn 1964. Hringnótin sem Gullfaxi notaði var 117 faðma löng og 20 faðma djúp. Helsta vandamálið sem útgerð Gullfaxa stóð frammi fyrir var að erfiðlega gekk að fá einhverja fiskimjölsverksmiðju til að vinna aflann. Loks tókst að fá Lýsi og mjöl í Hafnarfirði til að hefja loðnuvinnslu. Framan af var loðnan einungis veidd úti fyrir suður- og suðvesturströnd landsins.
  • Árið 1966 héldu Síldarvinnsluskipin Barði og Bjartur til loðnuveiða og frá þeim tíma hafa skip frá fyrirtækinu ávallt tekið þátt í loðnuvertíðum. Tveir Síldarvinnslubátar héldu til loðnuveiða árið 1968 og þá var loðna fyrst tekin til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins í Neskaupstað. Hinn 21. febrúar þetta ár kom Börkur með fyrsta loðnufarminn sem þar var landað en alls tók verksmiðjan á móti 7.759 tonnum af loðnu á vertíðinni og framleiddi 1.342 tonn af loðnumjöli og 309 tonn af loðnulýsi.

Börkur NK kom með fyrsta loðnufarminn til Neskaupstaðar 21. febrúar 1968. Ljósm: Guðmundur Sveinsson

  • Eftir að móttaka loðnu hófst á Austfjörðum fóru Austfirðingar að velta því fyrir sér hvort ekki væri unnt að hefja loðnuveiðar fyrr en gert var og veiða loðnuna á meðan hún væri að ganga suður með Austfjörðum. Sérstaklega var rætt um hvort mögulegt væri að loðnan gæti komið í stað síldarinnar sem hafði verið undirstaða atvinnulífs á fjörðunum en var nú horfin á braut frá miðunum við landið. Fyrst var reynt að leggja stund á loðnuveiðar út af Austfjörðum árið 1970 en veður var óhagstætt og loðnan stóð djúpt og því varð veiðiárangur lítill. Segja má að fyrst hafi náðst góður árangur á loðnuveiðum austan og norðaustan af landinu árið 1972. Við það jókst loðnuafli mikið og urðu Austfirðir miðstöð veiða og vinnslu fyrri hluta hverrar vertíðar.
  • Allt frá þessum tíma hefur Síldarvinnslan lagt mikla áherslu á veiðar og vinnslu á loðnu og hefur loðnan ávallt haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækisins. Lögð hefur verið áhersla á að fyrirtækið ætti skip sem hentuðu til loðnuveiða og þá hafa vinnslustöðvarnar í landi verið útbúnar til að gera sem mest verðmæti úr þeirri loðnu sem berst að. Framleiðsla á frystri loðnu til útflutnings hófst hjá Síldarvinnslunni árið 1971 en þá voru fryst 104 tonn. Með tímanum varð loðnufrysting mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækisins. Vinnsla á loðnuhrognum hófst síðan hjá Síldarvinnslunni árið 1978.

Hrognavinnsla hófst hjá Síldarvinnslunni árið 1978 og hefur síðan verið mikilvægur þáttur í vinnslu á loðnu. Ljósm: Hákon Ernuson

  • Það er afar mikilvægt fyrir Síldarvinnsluna að loðnuveiðar verði heimilaðar og því bíða menn spenntir eftir niðurstöðum allra loðnuleitarleiðangra. Fyrirtækið gerir út tvö skip, Börk og Beiti, sem gert er ráð fyrir að leggi stund á loðnuveiðar og eins er ráðgert að Bjarni Ólafsson AK, sem er í eigu dótturfélags Síldarvinnslunnar, haldi til loðnuveiða. Þá skal haft í huga að Síldarvinnslan á og rekur þrjár fiskimjölsverksmiðjur og fullkomið fikiðjuver sem byggja að drjúgum hluta á loðnu sem hráefni. Það verður því ekki annað sagt en að loðnan sé áhrifarík þó lítil sé.
  • Það hefur mikið breyst hvað vinnslu á loðnu varðar. Hér að framan var þess getið að loðna hefði fyrst verið fryst hjá Síldarvinnslunni árið 1971 en þá voru fryst 104 tonn. Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað tekur nú nákvæmlega 2,8 klukkustundir að vinna 104 tonn af loðnu.
  • Um borð í Beiti NK á loðnumiðunum. Ljósm: Helgi Freyr Ólason

 

Deila: