Aukið aflaverðmæti í Noregi

Deila:

Aflaverðmæti norskra fiskiskipa fór í fyrsta skipti yfir 20 milljarða norskra króna á síðasta ári.  Það svarar til 284 milljarða íslenskra króna og er aukning um 20 milljarða íslenskra króna.  Þessi árangur náðist þrátt fyrir töluverðan samdrátt í afla mikilvægra tegunda eins og þorsks, ýsu, síldar og makríls og engu að síður varð heildaraflinn meiri en árið áður.

Veiðar á uppsjávarfiski gengu betur í fyrra en undanfarin ár og skiluðu bæði auknu verðmæti og magni. Þar skiptir loðnan mestu máli í magni og verðhækkanir á makríl og kolmunna í verðmæti.
Töluverður samdráttur varð í veiðum á þorski og ýsu, eða um 10% og 18%. Ufsaafli jókst á hinn bóginn um 13%. Verðhækkanir á þorski og ýsu leiddu þrátt fyrir þetta til þess að aflaverðmætið var á svipuðu róli og árið 2017. Þorskur og skyldar fisktegundir skiluðu helmingi alls aflaverðmætis í fyrra eða 192 milljörðum króna.
Rækjuafli meira en tvöfaldaðist í fyrra miðað við árið áður og varð alls 28.000 tonn. Þrátt fyrir verðlækkun að meðaltali um 6,5% tvöfaldaðist verðmætið og náði 14 milljörðum íslenskra króna. Veiðar á skelfiski skiluðu alls tæpum 20 milljörðum króna, sem er að 50% vöxtur frá 2017.

Deila: