Fylltu skipin á sólarhring

Deila:

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE halda áfram að gera það gott en veiðar hafa undanfarið gengið með allra besta móti. Á vef Síldarvinnslunnar segir að þeir hafi báðir landað fullfermi í Vestmannaeyjum á miðvikudag. Aflinn fékkst á um það bil sólarhring í Háadýpinu við Hólshraun. Þessum miðum hefur nú verið lokað vegna hrygningarstopps.

Rætt er við Birgi Þór Sverrisson, skipstjóra á Vestmannaey. „Það var dregið í um það bil 40 mínútur hverju sinni og aflinn var afar góður. Það sem meira er að þarna fékkst töluverður ufsi og það er stórfrétt. Auk ufsaaflans fékkst einnig þorskur og ýsa. Þetta gekk semsagt eins og í sögu og aflinn var hagstæð blanda. Miðin eru í um það bil 40 mínútna siglingafjarlægð frá höfninni í Eyjum þannig að þetta var í reynd eins þægilegt og hugsast getur,“ segir Birgir Þór.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, hefur svipaða sögu að segja. Aflinn hafi verið blandaður en vænn. „Þarna fékkst stórufsi, stórýsa og einnig dálítill þorskur. Það eru í reynd tíðindi þegar ufsaveiði er góð eða þokkaleg, en nú er komið hrygningarstopp á þessu svæði svo það verður ekki framhald á henni að sinni,“ segir Ragnar.

Deila: