Kvótinn alveg að klárast

Deila:

Aðeins eru eftir um 12 þúsund tonn af almennum kvóta af þorski. Ýsukvótinn er einnig að klárast; þrjú þúsund tonn eru eftir af 45 þúsund tonna úthlutun. Til viðbótar á eftir að veiða úr byggðapottum, svo sem strandveiði.

Þetta kemur fram á vef RÚV. Þar segir að mokveiði hafi verið hjá smábátum og haft er eftir sjómanni að önnur eins ýsugengd hafi ekki sést. Hann hafi dregið 200 kíló af ýsu á hálftíma.

Haft er eftir Erni Pálssyni, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, að hann búist við því að kvótinn verði aukinn. Allir séu að verða kvótalausir og að aldrei hafi menn orðið varir við aðra eins fiskgengd. „Því finnst mér ástæða til að flýta þeirri aukningu sem fyrirsjáanlega er. Það trúir enginn öðru en að það verði bætt við kvótann verulega þegar niðurstöður úr rallinu koma. Hafrannsóknastofnun hefur nýlokið rallinu í mars og niðurstöðurnar koma á næstu vikum. Það eru flestir sem búast við því að það verði aukning bæði í þorski og ýsu,“ segir Örn.

Hann bendir á að veiðistopp gæti haft þær afleiðingar að markaðir tapist.

Deila: