Dýrari íslenskur fiskur skaðar breskan veitingageira

Deila:

Þúsundir veitingastaða í Bretlandi sem selja hina vinsælu máltíð Fish & Chips, fisk og franskar, gætu þurft að loka á komandi misserum vegna hækkandi verðs á sólblómaolíu frá Úkraínu, aðfanga frá Rússlandi og þorski frá Noregi og Íslandi.

Þetta kemur fram á fréttavef CNN, en þar segir að veitingageirinn í Bretlandi sé undir þrýstingi vegna tafa í aðfangakeðjunni. Eigendur staðanna horfi fram á miklar verðhækkanir og vöruskort sem skrifa megi á stríðið í Úkraínu og viðskiptahindranir gagnvart Rússlandi. ruv.is greinir frá þessu.

Andrew Crook, sem er í forsvari fyrir samtök veitingastaða þar sem fiskur og franskar eru aðalsöluvaran, gjarnan þorskur eða ýsa frá Íslandi, telur að allt að þrjúþúsund staðir muni þurfa að leggja upp laupana á næstunni.  

Þúsundir veitingastaða gætu þurft að loka

Að mati Crook er staðan nú sú versta í manna minnum, verðin hafi verið að stíga á síðasta ári vegna heimsfaraldursins, en hafi skotist upp í hæstu hæðir eftir innrás Rússlands í Úkraínu.

Öll aðföng hafi hækkað og iðnaðurinn sé samhliða undir þrýstingi vegna viðskiptahindrana við Rússland. Allt að 40% aðfanga veitingastaðanna komi þaðan.

Íslenskur fiskur tvöfaldast í verði  

Verðmæti sjávarafurða frá Íslandi hefur einnig aukist mikið síðustu misseri. Crook segir að verð á kassa af þorski hafi hækkað í 270 sterlingspund úr 140 pundum á sama tíma í fyrra, úr 23 þúsund krónum í tæplega 45 þúsund krónur, á verðlagi dagins í dag. 

Neytendur hafi væntingar um að verð á fiski og frönskum sé viðráðanlegt enda sé þetta sögulega vinsæll og ódýr skyndibiti. Fyrir ári síðan kostaði hefðbundin máltíð um 7 sterlingspund, um 1.150 krónur, en nú kosti skammturinn um 8,50 pund, eða um 1.400 íslenskar krónur. 

Þetta sé um 20% verðhækkun á einu ári og meira en breskir neytendur séu tilbúnir að greiða fyrir þennan óopinbera þjóðarrétt Breta.

Við höfum þegar séð fjölda fastakúnna sem borða hjá okkur á hverjum föstudegi snúa við í dyrunum um leið og þeir sjá verðið. Hættan er að við séum að verðleggja vöruna út af markaðinum, segir Andrew Crook. 

Deila: