Margvíslegar annir hjá Gæslunni í fyrra

Deila:

Landhelgisgæsla Íslands fagnaði níutíu ára afmæli á árinu 2016 en 1. júlí 1926 er stofndagur hennar. Í tilefni afmælisins ákvað Landhelgisgæslan að efna til samfélagsverkefnis í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða og þakka fyrir stuðninginn. Langveikum börnum og fólki sem nýtt hefur sér geðsvið Landspítalans var meðal annars boðið í þyrluflug. Eins og áður hefur verið tekinn saman annál Gæslunnar á liðnu ári.

„Óhætt er að segja að miklar annir hjá flugdeild LHG sé eitt af því sem einkennt hefur störf stofnunarinnar á þessu ári. Bráðabirgðatölur frá flugdeildinni sýna að á árinu 2016 voru útköllin alls 251 samanborið við 218. Útköllunum hefur því fjölgað um 15 prósent á milli ára. Vaxandi ferðamannafjöldi sést meðal annars á því að leitar- og björgunarútköllum í óbyggðum fjölgaði um tæpan þriðjung frá 2015 og sjúkraflutningum í óbyggðum um rúm 40 prósent á milli ára.

Ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár var lítið um erlend verkefni hjá Landhelgisgæslunni í ár. Af bókhaldslegum ástæðum sinnti varðskipið Týr engum verkefnum fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins, í Miðjarðarhafi. Flugvélin TF-SIF tók að að sér verkefni þar snemma á árinu en þau stóðu ekki lengi yfir. Tekjurnar sem Landhelgisgæslan hefur haft af þessum erlendum verkefnum hafa skipt verulegu máli fyrir stofnunina og því munaði verulega um þær í rekstrinum á árinu.

Á síðasta degi ársins 2016 Landhelgisgæslan björtum augum fram á veginn og hlakkar til að takast á við þær áskoranir sem árið 2017 á eftir að bera í skauti sér. Landhelgisgæsla Íslands óskar landsmönnum öllum farsældar á nýju ári og þakkar auðsýnda velvild og stuðning í áranna rás,“ segir í inngangi að annálnum.

Í annálnum er stiklað á stóru í starfseminni á árinu 2016 eins og hún blasti við í fréttum á vefsíðu gæslunnar. Listinn er alls ekki tæmandi heldur einungis hugsaður til að gefa svipmynd af verkefnum ársins.
Annálinn má lesa í heild á slóðinni:
http://www.lhg.is/frettirogutgafa/frettir/gledilegt-nytt-ar-annall-landhelgisgaeslunnar-2016

 

Deila: