Aflaverðmæti sveiflast milli landshluta

Deila:

Aflaverðmæti féll verulega í febrúarmánuði vegna verkfalls sjómanna, sem lauk 19. dag mánaðarins. Það bitnaði misjafnlega á landshlutunum, mest þar sem bolfiskur er uppistaðan en minna á þeim höfnum sem nutu góðs loðnuafla eftir að veiðar hófust að loknu verkfalli. Samtals féll aflaverðmætið um 53,6%.

Mest verðmæti voru á Austurlandi, 2,3 milljarðar króna og er það aðeins 13,5% samdráttur frá árinu áður, þrátt fyrir verkfallið. Þar nýtur landshlutinn loðnunnar en geldur á móti þess að enginn komunni veiddist í mánuðinum. Öll uppsjávarskipin einbeittu sér að loðnu seinni hluta febrúar.

Næstmest aflaverðmæti voru á Suðurnesjum í febrúar, 1,3 milljarðar króna, sem þó er um 53% samdráttur. Það svarar til samdráttarins í heildina þó einhverju af loðnu hafi líklega verið landað í Helguvík.

Suðurland er í þriðja sæti á þessum lista með 894 milljónir króna. Það er 18,8% minna en í febrúar í fyrra. Það nýtur landshlutinn líka loðnunnar.

Höfuðborgarsvæðið er nú aðeins í fjórða sæti en trónir venjulega á toppnum. Verðmæti landaðs afla þar var nú aðeins 851 milljón, en var 3,2 milljarðar í febrúar í fyrra. Það er samdráttur um 73,6%.

Norðurland eystra er næst með 576 milljónir króna. Það er samdráttur um 64,9% enda fjórðungurinn mjög háður botnfiski. Á Vesturlandi varð aflaverðmætið 479 milljónir króna, sem er 47,5% samdráttur og á Vestfjörðum varð verðmæti landaðs afla 315 milljónir króna, sem er 47,9% samdráttur.

Norðurland vestra virðist hafa farið verst út úr verkfallinu. Þar féll verðmæti landaðs afla úr 567 milljónum niður í 63 milljónir, sem er 88,9% samdráttur.

Deila: