Fékk loðnu á Norðfjarðarflóa

Deila:

Norski loðnubáturinn Roaldsen kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 500 tonn af loðnu. Hann var á leið til löndunar með 430 tonn þegar hann rakst á loðnutorfu yst á Norðfjarðarflóa og kastaði á hana. Um 70 tonn af góðri loðnu fengust í kastinu.

Erling Roaldsen, skipstjóri, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að það hafi komið á óvart að rekast á loðnutorfu þarna, en aflinn hafði að öðru leyti fengist um 9 mílur frá landi norður af Glettinganesi. Erling sagði að Roaldsen hefði komið á miðin við Ísland 8. febrúar og þetta væri önnur veiðiferð skipsins.

Erling_Roaldsen_NO_feb_17_HE-fit-550x551

„Við lönduðum fyrst 400 tonnum á Fáskrúðsfirði og erum því búnir að fá 900 tonn. Kvótinn okkar er 1200 tonn, en við sjáum um að veiða kvóta tveggja skipa,“ sagði Erling. „Við höfum séð töluvert af loðnu, einkum fyrst eftir að við komum á miðin. Og það er mjög mikið um hval á miðunum en hvalurinn fylgir loðnunni að venju. Norsku bátarnir hafa verið að fiska víða. Framan af veiddu þeir mest úti af Norðurlandi vegna þess að það var mikil áta í loðnunni sem veiddist fyrir austan. Meirihluti bátanna fara til Noregs með aflann en aðrir landa hér á landi og það höfum við gert. Við megum veiða loðnu hér við Ísland til og með 22. febrúar en við vonumst eftir að fá að veiða lengur. Nú eru norsku bátarnir búnir að veiða 37 þúsund tonn af 59 þúsund tonnum sem þeir hafa heimild til að veiða. Þeir eiga því eftir að veiða 22 þúsund tonn,“ sagði Erling að lokum.

Gert er ráð fyrir að byrjað verði að landa úr Roaldsen í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar síðdegis í dag eða þegar löndun úr Havfisk lýkur. Havfisk var með 500 tonn rétt eins og Roaldsen.

Á myndinni bíður norski loðnubáturinn Roaldsen bíður löndunar. Ljósm. Hákon Ernuson

 

Deila: