Sjófrysting hrundi í febrúar

Deila:

Gífurlegur samdráttur varð í sjófrystingu í febrúarmánuði síðastliðnum. Skýringin liggur að sjálfsögðu í verkfalli sjómanna sem leystist ekki fyrr en 19. febrúar. Fyrir vikið varð litlu sem engu landað af frystitogurum í mánuðinum. Þar sem veiðidagar í mánuðinum voru aðeins 9 og lönduðu þeir allir eftir mánaðamótin febrúar mars. Á hinn bóginn var eitthvað af loðnu sjófryst í mánuðinum.

Verðmæti afla úr sjófrystingu í febrúar var aðeins 274 milljónir króna, var 3,1 milljarður í sama mánuði í fyrra. Það er samdráttur um 91.3%. Að sama skapi hrundi útflutningur á ferskum fiski í gámum úr 302 milljónum króna í 83,2 milljónir eða um 72,4%.

Verkfallið bitnaði meira á ráðstöfun afla beint til vinnslu innan lands en á fiskmörkuðum. Verðmæti í beinum viðskiptum var 4,1 milljarður króna og dróst saman um 42,1%. Verðmæti fiskafla sem landað var á fiskmörkuðum var 1,3 milljarðar króna, sem er 30,6% samdráttur.

Deila: