Minna framlag ríkisins til Matís

Deila:

„Í frumvarpi til fjárlaga, sem lagt var fram 12. september sl., kemur fram áætlun um að lækka fjármagn ríkisins til matvælarannsókna (Matís) um 51 milljón á næstu tveimur árum, úr 441 milljón í 390 milljónir. Þetta er þvert á þörf fyrir nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi um allt land og mun reynast skammgóður vermir fyrir ríkissjóð, enda hefur rekstur Matís gengið vel og skilað samfélaginu miklum ávinningi. Að teknu tilliti til skattgreiðslna og tryggingagjalds stóðu einungis um 80 milljónir eftir af þeim 435 milljónum sem þjónustusamningur um matvælarannsóknir skilaði Matís árið 2016.“

Sveinn Margeirsson forstjóri Matís

Svo ritar Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís í pistli á heimasíðu Matís. Þar segir hann ennfremur:

„Þess er skemmst að minnast að sumarið 2017 greip yfirstjórn Matís til aðhaldsaðgerða til að koma í veg fyrir tap á yfirstandandi ári, enda hefur traustur rekstur verið í fyrirrúmi hjá Matís frá upphafi. Að aðhaldsaðgerðunum loknum leit út fyrir að Matís gæti stutt vöxt í lífhagkerfinu af krafti. Viðbúið er að boðaður niðurskurður skaði getu Matís til að þjóna lögbundnu hlutverki sínu við að auka verðmætasköpun, matvælaöryggi og að bæta lýðheilsu.

Matís tekjur

Sértekjur Matís árið 2016 námu 1180 milljónum. Fjárfesting ríkisins í matvælarannsóknum er nauðsynleg til mótfjármögnunar samkeppnissjóða, en fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til matvælarannsókna sækir metnaðarfullt starfsfólk Matís 2,6 krónur í sértekjur og vega þar þyngst erlendir samkeppnissjóðir, s.s. Horizon 2020, sem skiluðu Matís 481 milljón á árinu 2016 og íslensku nýsköpunarsamfélagi enn meiru. Ef litið er til þeirra fjármuna frá hinu opinbera, sem Matís hefur úr að spila að lokinni greiðslu skatta og opinberra gjalda (80 milljónir) lætur nærri að starfsfólk Matís hafi náð að ávaxta þá fjárfestingu fimmfalt með sókn í erlenda sjóði og þrefaldað fjárhæðina með innlendum styrkjum á sama tíma.  Slík ávöxtun þætti flestum fjárfestum góð og eru þá vantalin þau áhrif sem rannsóknaverkefni Matís hafa á samfélagið um allt land.

Dæmi um alþjóðlegt verkefni sem nýtist íslensku rannsóknasamfélagi er FarFish, sem Matís sótti í Horizon 2020 á árinu 2016. Matís leiðir verkefnið og meðal mikilvægra samstarfsaðila er Sjávarútvegsskóla háskóla sameinuðu þjóðanna (UNUFTP). Búast má við að tekjur UNUFTP, sem er hýst hjá Hafrannsóknastofnun, af verkefninu nemi um 279 þúsund Evrum á næstu árum, sem jafngildir 69% af væntum tekjum Hafrannsóknastofnunar, rannsókna og ráðgjafarstofnunar Hafs og vatna af rannsókna og þróunar verkefnum fjármögnuðum með stuðningi Horizon 2020.

Í stað þess að skera niður fjárfestingu ríkisins í matvælarannsóknum og hefta þannig metnaðarfulla sókn Matís í alþjóðlega samkeppnissjóði, væri skynsamlegra að auka fjárfestinguna til eflingar Matvælalandsins sem Ísland getur verið og varðveislu Matarauðs okkar.“

Deila: