Samruni VSV, Óss og Leo Seafood samþykktur

Deila:

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Vinnslustöðvarinnar hf., Útgerðarfélagsins  Óss hf. og Lea Seafood ehf. Samruninn var tilkynntur samkeppnisyfirvöldum 28. febrúar 2023 og niðurstaðan liggur nú fyrir. Frá þessu er greint á vef Vinnslustöðvarinnar.

Fram kemur að fyrirtækin fari með tæplega 7% af aflahlutdeild í þorskígildiskílóum, sem er undir 12% hámarki samkvæmt lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir meðal annars: „Samkvæmt upplýsingum í málinu frá Fiskistofu munu samrunaaðilar fara með tæp 7% af aflahlutdeild í þorskígildiskílóum, sem er undir 12,0% hámarki samkvæmt lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Ef miðað væri við víðtækari yfirráð myndu samrunaaðilar og FISK Seafood ráða yfir 12,33% af aflahlutdeildum. Slík markaðshlutdeild gefur ekki tilefni til frekari skoðunar með hliðsjón af samkeppnislögum að mati Samkeppniseftirlitsins eins og atvikum er háttað í þessu máli. Að því sögðu fer Samkeppniseftirlitið ekki með eftirlit vegna laga um stjórn fiskveiða. Gaf Fiskistofa umsögn í málinu og gerði ekki athugasemdir við samrunann.”

Deila: