Ákveða að kæra atkvæðagreiðslu um kjarasamning sjómanna
Hópur sjómanna hefur ákveðið að kæra til Félagsdóms framkvæmd atkvæðagreiðslunnar um kjarasamninginn sem undirritaður var um helgina. Þeir telja að reglugerð ASÍ hafi verið brotin og of stuttur tími hafi liðið frá því samningurinn var samþykktur, þar til atkvæðagreiðslan fór fram samkvæmt frétt á ruv.is.
Skrifað var undir nýjan kjarasamning samtaka sjómanna og útgerðarmanna aðfaranótt laugardagsins 18. febrúar. Eftir kynningu hófst atkvæðagreiðsla á sunnudagsmorgun og á sunnudagskvöld var ljós að samningurinn hafði verið samþykktur.
Sjómannasambandinu stefnt fyrir Félagsdóm
Nú hefur hópur sjómanna ákveðið að kæra framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og er Heiðveig María Einarsdóttir, viðskiptalögfræðingur og sjómaður, fulltrúi kærendanna. „Það hefur verið ákveðið að kæra atkvæðagreiðsluna sem fram fór síðastliðina helgi um þennan kjarasamning. Þá hefur verið ákveðið að senda inn beiðni um álit eða jafnvel bindandi úrskurð frá miðstjórn ASÍ þar sem Sjómannasambandið er aðili. Samhliða því verður Sjómannasambandinu stefnt fyrir Félagsdóm til þess að fá úr því skorið hvort að framkvæmdin á atkvæðagreiðslunni hafi verið lögmæt og verið í samræmi við vinnuréttarlöggjöf og almennar reglur sem að gilda um þessháttar atkvæðagreiðslur,“ segir hún.
Hópur sjómanna um allt land standi að kærunni
Hún segir kæruna fyrst og fremst snúast um þann stutta tíma sem leið frá því samningurinn var samþykktur þar til atkvæðagreiðslan hófst. Þar telji menn að reglur ASÍ hafi verið brotnar. Það skuli kynna kjarasamninga með sjö daga fyrirvara að lágmarki, en heimilt sé að stytta það í tvo sólarhringa. Atkvæðagreiðsla skuli síðan standa í að minnsta kosti tvo sólarhringa. „Menn vilja líka freista þess að fá niðurstöðu um þennan samning sem er hafin yfir allan vafa. Þetta er hópur sjómanna undir hinum ýmsu aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands, um allt land.“
Ekki verið gert með þessum hætti fyrr
Hún segir stefnt að því að leggja kæruna fyrir í þessarri vknu og jafnframt að biðja um álitið frá ASÍ. Í framhaldi að því verði Félagsdómur svo kallaður saman. „Þetta er reyndar fordæmislaust og hefur ekki áður verið gert með þessum hætti. Þess vegna má væntanlega kalla þetta viðurkenningarmál, að fá viðurkenningu á því að þetta hafi ekki verið lögmætt. Og þá er bara spurning hvernig Félagsdómur tekur á því,“ segir Heiðveig María.