Kvótinn á norsk-íslensku síldinni tæp 80.000 tonn

Deila:

Leyfilegur heildarafli íslenskra fiskiskipa úr stofni norsk-íslensku síldarinnar á þessu ári verður 79.662 tonn að teknu tilliti til færslu 13.000 tonna kvóta frá síðasta ári, en ekki náðist að klára hann. Leyfilegur heildarafli á síðasta ári var 101.659 tonn, en heildaraflinn varð þá 88.587 tonn.

18 skip fá nú úthlutað afla af norsk-íslensku síldinni. Mestar heimildir við úthlutun áður en nokkrar heimildir hafa verið færðar milli skipa er Vilhelm Þorsteinsson EA með, samtals 8.957 tonn. Næst á eftir honum kemur Beitir NK með 8.373 tonn og í þriðja sætinu er Börkur NK með 7.405 tonn.

Þegar litið er á gang mála í fyrra lönduðu 17 skip þúsund tonnum af síld eða meira. Sex skip fóru yfir 6.000 tonnin. Aflahæsta skipið var þá Beitir NK með 9.548 tonn. Vilhelm Þorsteinsson EA kom næstur með 6.944 tonn og í þriðja sætinu var Börkur NK með 6.857 tonn. Þá komu Venus NS og Víkingur AK með 6.497 tonn hvort skip fyrir sig og loks Sigurður VE með 6.068 tonn.

Deila: