Lítill þorskafli við Færeyjar í janúar

Deila:

Alls var landað 4.614 tonnum af botnfiski og fiski öðrum en uppsjávarfiski í gegnum löndunarkerfi Færeyja í janúar. Það er 283 tonnum minna eða 5,8% samdráttur miðað við sama mánuð í fyrra. Verðmæti landaðs afla varð 821 milljón íslenskra króna, sem er samdráttur um tæp 20%

Megnið af þessum fiski en botnfiskur, þorskur, ýsa og ufsi, eða 4.156 tonn nú og er það samdráttur um 2,2%. Mjög litlu var landað af þorski, aðeins 765 tonnum á móti 1.446 tonnum í janúar í fyrra. Mismunurinn er 681 tonn eða um 47%. Af ýsu bárust á land 337 tonn, sem er samdráttur um þriðjung. Aðra sögu er að segja af ufsanum. Af honum komu á land 2.476 tonn, sem er aukning um rúm 500 tonn eða ríflega fjórðung.

Af öðrum botnfiski varð aflinn 579 tonn, sem er hvorki meira né minna 70% aukning. Sé litið á aðrar einstakar mikilvægar tegundir veiddust aðeins 42 tonn af skötusel, sem er 43% samdráttur og 84 tonn af grálúðu, sem er fall um 22%. Loks má nefna skelfiskinn. Af honum komu nú á land 261 tonn, en 374 tonn komu á land í janúar í fyrra. Mismunurinn er 30%.

Samdráttur í magni og verðmæti mælt í prósentum fylgist nokkuð vel að og bendir það til lítilla verðbreytinga milli þessara mánaða. Margt getur komið til sem skýringar á þessum sveiflum í löndunum. Það geta verið að landanir lendi sitthvoru megin mánaðamóta, það geta verið slæmar gæftir og það getur verið veiðibann færeyskra báta við Ísland í mánuðinum.

Deila: