MESA vélar um allan heim

Deila:

„Við byrjuðum að framleiða M 950 fésvélar til vinnslu á hausum árið 1986 en þá var góður markaður fyrir söltuð þorskfés og vöntun á góðum vélbúnaði til að kljúfa hausana. Síðan þá höfum við framleitt fjöldann allan af M 950 en hún er aðeins ein af mörgum gerðum MESA véla sem við framleiðum. Vélarnar hafa í gegnum árin verið í stöðugri þróun,“ segir Árni M. Sigurðsson í samtali viðnýýjasta tölublað Sóknarfæris í sjávarútvegi. Hann er eigandi og framkvæmdastjóri Á.M. Sigurðssonar ehf. í Hafnarfirði sem hefur sérhæft sig í framleiðslu á fjölbreyttum vélbúnaði til að auka nýtingu á hausum og öðru sem oft er talað um aukaafurðir í fiskvinnslu.

„Hlutur aukaafurðanna hefur aukist“

MESA vélar voru settar í nýja frystitogara DFFU, dótturfélags Samherja hf., sem lokið var smíði á nýlega. „Í því tilfelli er um að ræða vélar sem slíta tálknin úr hausnum, skera klumbuna frá, gelluna og kinnarnar. Allt í einni og sömu vélinni,“ segir Árni en þessi vél ber heitið MESA 900. Sem dæmi um aðrar vélar í MESA línunni nefnir hann M 955 og M 957 en það eru vélar sem notaðar eru við hausaþurrkun og áðurnefnda fésvél, M 950, en hún slítur tálknin úr hausnum og klýfur hann.

Einnig hefur M 850 hryggjavinnsluvélin verið vinsæl í tengslum við flökun og flatningu, en sundmagi hefur náð miklum vinsældum til dæmis á Spáni og í Asíu. Það er algengt að sjá M 950 og M 850 saman þar sem unninn er saltfiskur. „Hlutur þess sem kallaðar hafa verið aukaafurðir hefur alltaf verið að aukast í vinnslunni,“ segir Árni en MESA er með búnað sem bæði tengist þurrkun á fiski, söltun, vinnslu á ferskum afurðum og frystingu.

Á síðustu árum hafa MESA vélarnar að stærstum hluta verið framleiddar fyrir erlenda viðskiptavini en mikinn fjölda þeirra er einnig að finna í íslenskum fiskvinnslum allt í kringum landið. „Það hefur dregist saman á saltfiskmarkaðnum hérna heima og við vorum búnir að metta hann á sínum tíma. Umhverfið í þessu hefur mikið breyst á Íslandi frá því við byrjuðum. Bara hér í Hafnarfirði voru um 15 saltfiskverkanir en er kannski ein í dag. Áherslan hjá okkur hefur því meira verið á erlendan markað, bæði landvinnslur og útgerðir. Við höfum selt vélar um allan heim en mikið til Alaska, Rússlands og Noregs, svo helstu markaðssvæði séu nefnd. Ég sé því fram á að áherslan verði áfram á útflutning,“ segir Árni.

Framleitt eftir pöntunum

Auk framleiðslu á nýjum vélum er þjónusta við eldri vélar liður í starfseminni hjá Á.M Sigurðssyni ehf. og í sumum tilfellum þarf að breyta vélum til að fylgja eftir þróun í stærð á fiskinum. „Fiskurinn var stór þegar við byrjuðum á sínum tíma, síðan smækkaði hann en er aftur orðinn mun stærri. Þá getum við þurft að breyta vélum til að mæta því. Við veitum viðskiptavinum alla viðhaldsþjónustu á okkar vélbúnaði en starfsemi okkar að öðru leyti snýst um framleiðslu upp í pantanir,“ segir Árni.

Deila: