Hefur áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi

Deila:

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lýsir áhyggjum af samþjöppun í sjávarútvegi, eftir kaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík. Hún bendir á að fiskveiðiárið 2005 til 2006 hafi rúmlega níu hundruð útgerðir verið með kvóta en 2019 hafi þær verið innan við fjögur hundruð og fari enn fækkandi. Hún segir að tortryggni og ósætti í kringum sjávarútveg sé viðvarandi og fari vaxandi. Þetta segir hún í samtali á ruv.is

„Og eftir því sem fleiri svona dæmi, eins og við erum að horfa upp á núna eiga sér stað, því meiri gremja kraumar undir. Kvótakerfið og úthlutun kvóta er lokað kerfi og nýliðun er nánast ómöguleg. Síðan erfist kvótinn og helst innan fjölskyldna eða safnast á fáar hendur. Stórútgerðin malar gull, sem væri ágætt ef hún skilaði þá sanngjörnum hlut til þjóðarinnar en veiðigjöldin eru þannig að þau eru til skammar, leyfi ég mér að segja.“ , sagði Oddný í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hún sagði að þennan hagnað noti eigendur stórútgerða til að fjárfesta í fleiri atvinnugreinum og verði mjög valdamiklir í viðskiptum og stjórnmálum

Ójöfnuður vex og bilið milli þeirra sem búa við þau forréttindi að mega sækja í auðlind þjóðarinnar og annarra vex, sagði Oddný. Hún ítrekaði kröfu Samfylkingarinnar um útboð á veiðiheimildum sem hún sagði að tryggði bæði markaðsverð fyrir kvótann og að kerfið yrði opnara en nú er. Hún gagnrýndi líka hvernig lögum væri háttað, þannig að þau leyfðu mikla samþjöppun veiðiheimilda. Þrátt fyrir kvótaþak í einstökum greinum væri ekki tekið á eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja svo lengi sem þau ættu innan við helming í öðrum útgerðum.

 

Deila: