Erindi um blaðgrænu við yfirborð sjávar

Deila:

Fimmtudaginn 10. febrúar kl. 12:30 verður málstofa Hafrannsóknastofnunar haldin í fundarsal á 1. hæð að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.

Kristinn Guðmundsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun flytur erindið: Vöktun á styrk a-blaðgrænu við yfirborð sjávar, frá gervitunglum / Monitoring concentrations of surface chlorophyll a, from satellites

Fyrirlesturinn verður á íslensku. Glærur verða að mestu með íslenskum og enskum texta.

Erindi verður streymt á YouTube rás Hafrannsóknastofnunar,

https://www.youtube.com/channel/UCirTCP_aKFKz8LMoFoxWGbA

Úrdráttur

Erindið hefst á stuttu yfirliti yfir skráningar á styrk a-blaðgrænu við yfirborð sjávar samkvæmt gervitunglagögnum (SSCHL). Greint er frá því hvernig gögnin hafa verið endurmetin fyrir íslenska rannsóknasvæðið, í samræmi við staðbundið tölfræðilíkan (KG o.fl. 2016). Tölfræðilíkanið er að grunni til línuleg aðfallsgreining á annars vegar niðurstöðum mælinga á styrk blaðgrænu í sjósýnum sem safnað er í efstu fimm metrum sjávar og hins vegar tilsvarandi gildum SSCHL fyrir viðkomandi reit (pixel) skráð fyrir sama dag og stað. En, auk þess eru fléttaðar inn valdar skýribreytur til að leiðrétta kerfisbundna bjögun á framangreindu línulegu sambandi. Reifaðir eru helstu kostir og gallar framangreindra gagna og vikið að mögulegum útvíkkunum varðandi túlkun niðurstaðna á breytilegum styrk blaðgrænu við yfirborð sjávar í ljósi fyrirliggjandi beinna mælinga á svifgróðri í sjó. Að lokum er minnst á dæmi um hvernig umrædd gervitunglagögn nýtast í vistfræðilegum rannsóknum, bæði varðandi árlega framvindu gróðurs og hugsanleg áhrif gróðurframvindu á afkomu dýra á skilgreindum svæðum og tímum.

Um Kristinn

Árið 1985 var Kristinn ráðinn í stöðu sérfræðings til rannsókna á svifþörungum. Hann hóf að rannsaka frumframleiðni svifþörunga, m.a. með tilraunum til að meta afköst ljóstillífunar sem fall af birtu. Jafnframt var reynt að afla gagna um árlega framvindu gróðurs með ýmsum ráðum. Mikið magn gagna hefur safnast upp, en þar sem öflun sýna er bundin við sjóferðir er ekki hlaupið að því að fylgjast með breytingum yfir heilt gróðurtímabil nema með sérstöku átaki og á afmörkuðu svæði hverju sinni. Því var áhugavert að fylgjast með tækniframförum varðandi skráningar og túlkun á breytilegri samsetningu lita í endurvarpi ljóss frá yfirborði sjávar með fjarmælingabúnaði, í fyrstu frá flugvélum og síðar frá gervitunglum. Þróun búnaðar og aðferða til úrvinnslu á slíkum skráningum hefur fleygt fram á liðnum áratugum. Runa gervitunglagagna, sem rekja má óslitið aftur til ársins 1997 og ætluð er til vöktunar á heimshöfunum hefur verið gerð aðgengileg til hvers kyns rannsókna. Kristinn hefur nýtt sér þetta og óspart miðlað áfram því sem áunnist hefur. Almenn notkun stuðlar bæði að bættum skilningi á framvindu svifgróðurs og mikilvægi frumframleiðslunnar fyrir afkomu lífvera í sjó.

Kristinn útskrifaðist frá Háskólanum í Bergen árið 1985 með Cand.real gráðu í sjávarlíffræði og vistfræði svifþörunga sem sérgrein.

Deila: