Síldarvinnslan á tæknidegi fjölskyldunnar

Deila:

       Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað í áttunda sinn nk. laugardag. Ekki var boðið upp á tæknidag í skólanum tvö síðustu ár vegna kóvid – faraldursins. Það er Verkmenntaskólinn sem stendur fyrir deginum og eins og áður er mikið lagt í dagskrána. Hefst dagskráin kl. 12 og lýkur kl. 16. Aðgangur er ókeypis.

Samkvæmt venju er boðið upp á margt á tæknideginum og er áhersla lögð á að höfða til allra aldurshópa. Fjöldi stofnana og fyrirtækja munu kynna starfsemi sína og eins mun Verkmenntaskólinn kynna þá aðstöðu og þann kennslubúnað sem hann býður upp á. Á þessu ári hafa Verkmenntaskólinn og MATÍS staðið fyrir nýsköpunarkeppni í grunnskólum Fjarðabyggðar þar sem nemendur hafa unnið með þara. Á tæknideginum verða veitt verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í keppninni og mun forseti Íslands veita verðlaunin. Á síðasta ári unnu nemendurnir með kvarnir úr kolmunna í samsvarandi keppni og komu þá fram afar athyglisverðar hugmyndir.

„Síldarvinnslan mun að sjálfsögðu taka þátt í tæknideginum og kynna starfsemi sína. Þá verður gestum boðið upp á veitingar á sýningarsvæði fyrirtækisins. Tæknidagurinn hefur ávallt verið fjölsóttur og vel heppnaður og er hann tilhlökkunarefni hjá starfsmönnum Síldarvinnslunnar. Vonandi munu sem flestir leggja leið sína í Verkmenntaskóla Austurlands á laugardaginn og njóta þess sem þar verður boðið upp á. Það verður enginn svikinn af því,“ segir í frétt frá Síldarvinnslunni.
Það hefur oft verið fjölmennt á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum. Ljósm. Smári Geirsson

 

 

Deila: