Línubátur knúinn íslenskri orku

Deila:

NAVIS hefur í samstarfi við fleiri íslensk fyrirtæki undanfarið hálft annað ár unnið að hönnun á fyrsta hybrid línubátnum í heiminum. Ef af smíði verður mun báturinn verða knúinn áfram með raforku frá stórum rafhlöðum og auk þess búinn lítilli og eyðslugrannri aflvél til notkunar þegar orkuþörfin er meiri en rafhlöðurnar duga til. Orkukostnaður við útgerðina gæti lækkað um 50% og þar með kolefnisfótsporið. Hægt er að fullhanna bátinn innan tveggja ára og smíði hans getur þá hafist.

„Þessi hugmynd hefur verið í gerjun hjá okkur undanfarin misseri en hún gengur í stuttu máli út á að hanna frá grunni línubát, allt að 15 m, sem væri knúinn með með tvinnafli frá rafhlöðum og lítilli aðalvél er gengi fyrir metonóli. Rafhlöðurnar yrðu hlaðnar frá rafkerfi hafnarinnar þegar báturinn er við landfestar en við stefnum einnig á að síhlaða þær af sólar- og vindorku, bæði á sjó og í höfn. Á þennan hátt yrðu þarfir bátsins um orkugjafa uppfylltar af hreinni sjálfbærri, íslenskri orku. Við höfum sótt um styrki til að ljúka verkefninu og þau mál eru enn í athugun,“ segir Hjörtur Emilsson, framkvæmdastjóri NAVIS.

Mikill orkusparnaður

„Það bendir allt til þess að með þessari hybrid tækni megi spara 50% í eldsneytiskostnaði miðað við dieselolíu og þannig minnka kolefnisfótspor tilsvarandi,“ segir Hjörtur. Hann segir að til þessa hafi ekki hafi verið mikið hugað að orkunýtingu minni báta og smábáta, einkum hin síðari ár eftir að

olíuverð fór lækkandi en nú sé áhugi á umhverfisvænum orkugjöfum stöðugt að aukast enda krefjist fiskkaupendur þess í auknum mæli að varan sé umhverfisvottuð og fiskurinn veiddur með sjálfbærum hætti. Neytendur séu líka tilbúnir að greiða meira fyrir slíka afurð. „Fiskibátar af þessari stærð eru flestir hannaðir með það fyrir augum að ná miklum hraða og því búnir stórum og aflmiklum dieselvélum. Athuganir okkar leiða í ljós að þeir nýta sjaldnast þá eiginleika en keyra á hálfum hraða og varla það á stíminu á miðin. Okkar hugmynd gengur út á að nýta rafmagnið sem mest og búa svo bátinn lítilli metonólvél til viðbótar ef þörf er á. Eftir því sem við kynnum þetta betur finnum við að áhugi bæði sjómanna og útvegsmanna á þessum hugmyndum fer vaxandi.“

Fjölbreytt önnur ráðgjöf

Viðskiptavinum NAVIS stendur til boða fjölbreytt ráðgjöf á sviði verkfræði, skipasmíða og útgerðar. Fyrirtækið hefur meðal annars séð um leiðbeiningar og mat á verkefnum áður en í þau er ráðist, undirbúið, aðstoðað við og gert útboðsgögn sem undanfara framkvæmda og tekið þátt í og leitt samningaviðræður og metið og samið um verklok og greiðslur. Fyrirtækið sér um hallaprófanir, stöðugleikaútreikninga og margs konar önnur tæknimál og áætlanir fyrir útgerðarmenn, skipasmíðastöðvar og þjónustuaðila. Á seinni árum hafa tjónaskoðanir og matsgerðir af ýmsu tagi fyrir innlend og erlend tryggingafélög og skipafélög verið vaxandi þáttur í starfseminni. NAVIS er m.a. þátttakandi í Green Marine Technology samstarfinu sem hefur það yfirlýsta markmið að þróa umhverfisvænar lausnir sem byggja á grænni orku og minni olíunotkun og stuðla að aukinni framleiðslu og framlegð.
Þessi umfjöllun birtist fyrir í Sóknarfæri.

Deila: