Fiskeldi er framtíðaratvinnugrein á Íslandi

Deila:

Gætileg uppbygging, undir ströngu eftirliti þar sem gerðar eru strangar umhverfiskröfur eins og reyndin er, skapar því ekki þá áhættu sem ætla má af glannalegum fullyrðingum sem dynja oft yfir í fjölmiðlaumræðunni. Þetta eru lokaorð greinar Einars K. Guðfinnssonar formanns LF sem birtist í blaðinu Öldunni.

Fyrirsjáanlegt er að fiskeldi mun  byggjast afar hægt upp hér á landi á næstu árum. Framleiðsla á laxi í fiskeldi verður ekki nema um 10 þúsund tonn í ár og mun taka einhver ár að fara upp í 20 til 25 þúsund tonn. Það er agnarsmá framleiðsla í samanburði við önnur lönd. Bættur búnaður gerir öryggi við framleiðsluna meiri og reynslan hefur fært okkur heim sanninn um það. Með skipulagðri vöktun við laxveiðiár má afstýra því að fiskur sem kann að sleppa úr eldi rati upp í árnar. Stærstur hluti íslensku strandlengjunnar er og hefur verið lokaður fyrir fiskeldi allt frá árinu 2004. Fiskeldi er því og verður stundað fjarri helstu laxveiðiám okkar. Miklar framfarir eru í hvers konar líftækni sem dregur úr áhættu á erfðablöndun.

Fiskeldi er hvarvetna í vexti, þar sem því verður komið við vegna náttúrulegra aðstæðna. Þetta á ekki síst við hér við norður Atlantshafið. Í Noregi er stefnan tekin á fjórföldun eldisins, Færeyingar hafa byggt upp gríðarlega öflugt eldi, í Skotlandi er stefnt á tvöföldun eldisins. Kanadamenn efla sitt eldi, Bandaríkjamenn stefna að aukningu og horfa sérstaklega til sjóeldisins, Evrópusambandið hefur markað stefnu til þess að stuðla að vexti fiskeldis í aðildarlöndum sínum.
Í ljósi þess væri furðulegt, svo ekki sé meira sagt, ef við byggðum ekki upp fiskeldi hér á landi. Enda tala fulltrúar okkar stjórnvalda um að fiskeldi hér á landi sé komið til að vera; verði framtíðaratvinnugrein, en hvetja til varkárni og vandaðra vinnubragða. Undir það er eðlilegt og sjálfsagt að taka.
Eitt fiskeldisleyfi á ríflega 900 dögum !!
Þannig hefur líka verið staðið að málum hér á landi. Það er farið að með mikilli gát. Þess vegna er erfitt að skilja hvað við er átt þegar sagt er að nú sé rétt að hægja á útgáfu leyfa til fiskeldis hér við land. Hægja á. Hvernig er það í rauninni hægt? Fiskeldisuppbyggingin fer hér fram á hraða snigilsins og verður sú dýrategund þó seint sökuð um að fara sér að einhverju óðslega.
Endurskoðuð lög um fiskeldi tóku gildi í ársbyrjun 2015. Fyrir tveimur og hálfu ári. Og hver er staðan? Á þessum tíma, þeim ríflega 900 dögum sem liðnir eru frá gildistöku laganna, hefur verið veitt eitt fiskeldisleyfi í sjó – og það var stækkun á fyrirliggjandi fiskeldisleyfi!! Eitt leyfi á rífum 900 dögum !! Og svo tala menn um að hægja á. Hvað er þá hæfilegur hraði? Eitt leyfi á þriggja ára fresti, eða fimm ára fresti?
Fjárfest á Vestfjörðum einum fyrir rífa 20 milljarða
Rétt er það sem stjórnvöld hafa sagt. Fiskeldi er komið til að vera á Íslandi. Enda hefur þegar verið fjárfest í greininni á síðustu 2 til 3 árum fyrir tugi milljarða króna. Á Vestfjörðum einum nemur sú fjárfesting um 21 milljarði, sem er ígildi 9 stórra ísfisktogara af þeirri gerð sem hafa verið að koma til landsins á síðustu mánuðum. Þetta eru engar smá tölur í ekki stærra hagkerfi en því vestfirska og hefur haft mikil og jákvæð áhrif og mun hafa enn frekari áhrif á komandi misserum.
Fiskeldi er þekkingaratvinnugrein
Fiskeldi er þekkingaratvinnugrein. Hún krefst fjölþætts vinnuafls, sérhæfðrar þekkingar og menntunar á mörgum sviðum. Athyglisvert er að í því góða atvinnuástandi sem nú ríkir í landinu er mikil eftirspurn eftir störfum í greininni. Reynsla fiskeldisfyrirtækjanna er sú að fólk sækist eftir störfunum.

Fiskeldi hefur snúið byggðaþróuninni við
Þar sem fiskeldi hefur náð að festa rætur hefur byggðin eflst. Svo háttar til að á þeim svæðum sem fiskeldið er að byggjast upp, á Vestfjörðum og Austurlandi, hefur byggðin víðast hvar verið í vörn. Með tilkomu fiskeldisins hafa menn náð að snúa þeirri vörn í sókn. Glöggt dæmi um það er þróunin í grunnskólanum á Bíldudal. Þar var sú staða uppi og hafði verið um árabil að nemendum fækkaði. Með tilkomu fiskeldisins hefur orðið algjör viðsnúningur. Nemendum hefur fjölgað í skólanum um helming og er til vitnis um að ungt fólk, sem hefur trú á framtíðinni þar hefur sest að. Þetta er skýrt dæmi um hin jákvæðu áhrif sem fiskeldið hefur í dreifðum byggðum.

.
Aðgerðir til að koma í veg fyrir erfðablöndun
Miklar framfarir hafa orðið i allri fiskeldistækni á undandförnum árum og fyrirsjáanlegt er að sú þróun heldur áfram. Fiskeldismenn skynja vel ábyrgð sína, bæði gagnvart hinu samfélagslega umhverfi og einnig náttúrunni. Vitaskuld á að taka alvarlega þegar menn viðra áhyggjur sínar af áhrifum fiskeldis á villta laxastofna. Þá ber að hafa í huga að fyrirsjáanlega mun fiskeldið byggjast afar hægt upp hér á landi á næstu árum. Framleiðsla á laxi í fiskeldi verður ekki nema um 10 þúsund tonn í ár og mun taka einhver ár að fara upp í 20 til 25 þúsund tonn. Það er agnarsmá framleiðsla í samanburði við önnur lönd. Bættur búnaður gerir öryggi við framleiðsluna meiri og reynslan hefur fært okkur heim sanninn um það. Með skipulagðri vöktun við laxveiðiár má afstýra því að fiskur sem kann að sleppa úr eldi rati upp í árnar. Stærstur hluti íslensku strandlengjunnar er og hefur verið lokaður fyrir fiskeldi allt frá árinu 2004. Fiskeldi er því og verður stundað fjarri helstu laxveiðiám okkar. Miklar framfarir eru í hvers konar líftækni sem dregur úr áhættu á erfðablöndun. Og áfram má telja.
Gætileg uppbygging, undir ströngu eftirliti þar sem gerðar eru strangar umhverfiskröfur eins og reyndin er, skapar því ekki þá áhættu sem ætla má af glannalegum fullyrðingum sem dynja oft yfir í fjölmiðlaumræðunni.

 

 

 

Deila: