Fiskurinn fraus á efra dekkinu

Deila:

Maður vikunnar er matsmaður hjá Vísi hf. í Grindavík. Þar byrjaði hún fyrir 24 árum. Hún hefur einnig verið á togara í Smugunni í Barentshafi og langar til Ástralíu eða Japans í draumafríið.

Nafn?

Kristín Guðrún Hjálmarsdóttir.

Hvaðan ertu?

Flateyri við Önundarfjörð, hef búið í Grindavík  frá fjögra ára aldri. 

Fjölskylduhagir?

Bý með Kjell Ove Aarö,  tvær dætur og einn sonur. 

Hvar starfar þú?

Ég er matsmaður hjá Vísi í Grindavík, byrjaði þar fyrir 24 árum.

Hvenær hófst þú störf við sjávarútveg?

12 ára.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Þegar allt gengur mjög vel með góðum mannskap. 

En það erfiðasta?

Þegar eitthvað bilar, eins ef upp koma deilur hjá starfsmönnum. 

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í störfum þínum?

Ætli það sé ekki þegar ég var á togara í Smugunni. Við vorum  að hífa, pokinn var kjaftfullur af þorski og ekki var hægt að tæma allt í móttökuna. Það var svo kalt  að fiskurinn fraus upp á efradekki meðan verið var að blóðga úr móttökunni.

Hver er eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Enginn einn, hef átt marga góða vinnufélaga. 

Hver eru áhugamál þín?

Fjölskyldan, hannyrðir og vera með góðum vinum. 

Uppáhaldsmaturinn þinn?

Steiktur fiskur.  Fiskur er í uppáhaldi.

Hvert færir þú  í draumafríið?

Ástralíu eða Japans. 

 

 

Deila: