Uppbygging víkur – Fyrir hverju?

Deila:

„Áætlað hefur verið að byggja upp í Djúpinu um 30 þúsund tonna laxeldi. Áætlað útflutningsverðmæti þess eldis er áætlað um 25 milljarðar á ári. Byggðastofnun telur að um 200 bein og afleidd störf skapist við hver tíu þúsund tonn laxeldis. Samtals gætu því 600 bein og óbein störf orðið til í byggðum við Ísafjarðardjúp vegna laxeldis. Því er um gríðarlega beina fjárhagslega og byggðalega hagsmuni að ræða. Ráði áhættumat Hafrannsóknarstofnunar munu þessir hagsmunir víkja.“

Halldór Jónsson

Halldór Jónsson

 

Þannig kemst Halldór Jónsson rekstrarstjóri á Ísafirði og fyrrverandi bæjarfulltrúi á Ísafirði að orði í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 8. ágúst sl. undir fyrirsögninni: Takast á sveinar tveir.  Í greininni fjallar hann um þau þrjú helstu baráttu – og hagsmunamál Vestfirðinga sem hæst ber um þessar mundir; uppbyggingu laxeldis, vegagerð í Austur Barðastrandarsýslu og virkjanaáform í Hvalá á Ströndum.  Á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðvar er birtur sá hluti greinarinnar sem fjallar um fiskeldismál.

 Uppbygging víkur
Atvinnulíf á Vestfjörðum hefur á síðustu árum rétt úr kútnum, einkum vegna uppbyggingar laxeldis. Laxeldi á Vestfjörðum er byggt á ákvörðun sem tekin var 2004 um að loka stærstum hluta strandlengju Íslands fyrir laxeldi, en beina því í staðinn á þau svæði þar sem litlar sem engar laxveiðiár eru. Íbúum er tekið að fjölga á sumum svæðum Vestfjarða, nokkuð sem fyrir örfáum árum var talið ómögulegt. Þegar laxeldið var að komast á legg kom fram félagsskapur veiðirétthafa sem kvaðst beita öllum tiltækum ráðum til þess að koma í veg fyrir þessa atvinnuuppbyggingu, þrátt fyrir að hverfandi laxveiði sé í ám á Vestfjörðum. Þeir hafa svo sannarlega staðið við þá hótun og eru nú með færustu lagatækna landsins í vinnu.

Þá munu þessir hagsmunir víkja
Á dögunum birti Hafrannsóknarstofnun svo áhættumat þar sem lögð var til stöðvun uppbyggingar laxeldis í Ísafjarðardjúpi vegna laxveiða í þremur ám.
Áætlað hefur verið að byggja upp í Djúpinu um 30 þúsund tonna laxeldi. Áætlað útflutningsverðmæti þess eldis er áætlað um 25 milljarðar á ári. Byggðastofnun telur að um 200 bein og afleidd störf skapist við hver tíu þúsund tonn laxeldis. Samtals gætu því 600 bein og óbein störf orðið til í byggðum við Ísafjarðardjúp vegna laxeldis. Því er um gríðarlega beina fjárhagslega og byggðalega hagsmuni að ræða. Ráði áhættumat Hafrannsóknarstofnunar munu þessir hagsmunir víkja.
Fyrir hverju?
Tekjur af umræddum þremur ám í Ísafjarðardjúpi, Hvannadalsá, Laugardalsá og Langadalsá eru í besta falli 20-25 milljónir á ári. Ekkert starf hefur skapast á Vestfjörðum vegna þessarar starfsemi, svo vitað sé. Hver eru hin náttúrulegu verðmæti í þessum ám sem í hættu geta verið vegna hugsanlegra slysa við laxeldi? Engin þeirra státar af sínum upprunalega náttúrlega stofni heldur hefur um árabil verið stunduð þar skipuleg laxarækt með stofnum annars staðar frá. Ein þessara áa, Laugardalsá, er í grunninn ekki laxveiðiá. Hún varð það ekki fyrr en hún var sprengd upp og í hana byggður mikill laxastigi. Ekki er hér lagt til að slík á skuli flokkuð sem manngert leiktæki, en fráleitt er hún náttúruverðmæti. Veiði í þessum ám er hverfandi. Á síðasta ári voru dregnir úr ám laxar um þrjú hundruð sinnum, sumir oftar en aðrir. Það eru hagsmunir um tylftar veiðirétthafa þessara laxa sem eiga að ganga framar hagsmunum þúsunda íbúa svæðisins. Þarna ráða ekki hagsmunir íbúanna.

 

Deila: