Hnúðlax veiddist í net í Patreksfirði

Deila:

Hnúðlax veiddist í net í Patreksfirði þann 30. júlí. Eins og sést á mynd þá var þetta fallegur fiskur án áverka og með alla ugga heila. Það voru engin bitför af þeim 5 fiskilúsum sem voru á fiskinum.

Eva Dögg Jóhannesdóttir meistaranemi í líffræði, Margrét Thorsteinsson starfsmaður Náttúrustofu Vestfjarða, Anne Cochu dýralæknanemi.

Eva Dögg Jóhannesdóttir meistaranemi í líffræði, Margrét Thorsteinsson starfsmaður Náttúrustofu Vestfjarða ogAnne Cochu dýralæknanemi með hnúðlaxinn.

Frá þessu er greint á heimasíðu Náttúrustofu Vestfjarða, en starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða hafa unnið að verkefninu „Vöktun á lús á villtum laxfiskum á Vestfjörðum“ í sumar.  Verkefnið felst m.a. í að veiða villta laxfiska í sýnatökunet að fengu leyfi frá Fiskistofu og landeigendum. Á norðanverðum Vestfjörðum eru lögð net í Dýrafjörð, Önundarfjörð, Súgandafjörð og Ísafjarðardjúp. Á sunnanverðum Vestfjörðum í Patreksfjörð, Tálknafjörð og Arnarfjörð en þar eru sýnatökur gerðar í samstarfi við Evu Dögg Jóhannesdóttur sem er að vinna að meistaraverkefni sem er svipað og verkefni Náttúrustofunnar.

Hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha) er einnig þekktur sem bleiklax og er laxategund sem á ættir sínar að rekja í Kyrrahaf og er algeng þar. Laxinn er auðþekktur á dökkum hringlaga blettum á sporðinum og fíngerðu hreistri¹. Hnúðlaxinn sem fannst í Patreksfirði var kynþroska hængur en hann þekkist m.a. á hnúð á bakinu.

Hnúðlaxar sem flækjast um í Evrópu koma líklega frá Rússlandi en þar voru gerðar tilraunir um 1960 til að sleppa hnúðlaxaseiðum í ár á Kólaskaga. Talið er að þessi stofn hafi dreift sér að einhverju leyti og vísbending er um að hann sé að ná fótfestu í nokkrum ám í Noregi. Fjöldi veiddra hnúðlaxa var mikill í Noregi um 1960 og hefur aukist aftur í ár. Það er ekki vitað af hverju þeim hefur fjölgað þar en óskað er eftir upplýsingum frá veiðimönnum í veffangið; laks@nina.no². Hnúðlax sem veiðist hefur á Íslandi er talinn koma frá Noregi en lítið hefur veiðist af honum hér á landi.

 

Deila: