Veiðigjöldin ósanngjörn og skekkja myndina

Deila:

„Við erum aðallega að salta  fisk. Erum núna að vinna fisk af trillum sem við gerum út og erum með í viðskiptum. Við kaupum svo eitthvað smávegis á mörkunum. Einnig gerum við út línu- og netabátinn Þórsnes, sem hefur verið á netaveiðum á grálúðu og er núna á síðasta túr líklegast og fer síðan á þorskanet hérna fyrir vestan. Við reyndum fyrir okkur þar í fyrra haust og það kom alveg ágætlega út. Grálúðan er haus- og sporðskorin um borð, en þorskurinn kemur til vinnslu hjá Þórsnesi,“ segir Eggert Halldórsson, framkvæmdastjóri Þórsness.

Mikill bátur

Þórsnesið er mikill bátur, sem keyptur var frá Noregi í fyrra sumar og var afhentur síðastliðið vor. Hann er smíðaður 1996 og 43 metrar á lengd og 10,3 á breidd, 879 tonn. 16 manns eru í áhöfn.

„Við eigum svo í hlut í félagi sem heitir Sæfell ásamt öðrum, sem á stóran krókaflamarksbát sem  heitir Bíldsey og við sjáum um útgerðina á þeim bát. Sæfell er síðan að byggja leiguíbúðir hér í bænum, enda vantar húsnæði hér. Við erum að byggja átta íbúðir og erum mjög stoltir af því. Hér er nokkuð nóg af störfum en vantar vinnandi hendur og þá hlýtur svarið að vera að byggja íbúðarhúsnæði. Við erum búnir með eitt hús og annað langt komið og það kemur fólk í húsin um leið og þau eru tilbúin. Það eina góða við húsnæðisverðið í Reykjavík er að unga fólkið er að koma aftur heim,“ segir Eggert.

Vinna úr um 5.000 tonnum á ári

IMG_7207Þórsnes vann úr 5.000 tonnum af hráefni í fyrra og hefur verið ágætt að gera. Framleiðslan er að megninu til flattur fiskur bæði svokallaður SPIG fiskur, sem er í efstu gæðaflokkum. Það er línufiskur sprautusaltaður og pakkaður í 25 kílóa kassa. Hitt er  „PORT“ sem stendur fyrir Portúgal,, þar sem gæðakröfur eru lægri, annars er allt nýtt, eins og hausar, lundir af hryggjum og sundmagi. Eggert segir að vel gangi að selja saltfiskinn, birgðir virðist vera litlar og eftirspurn góð. Verð sé aðeins að þokast upp í erlendri mynt.

„Við erum svo aðilar að tilraunaverkefni í veiðum og vinnslu á hörpuskel og erum með um 33% hlutdeild í skelinni. Það eru fyrst og fremst þrjú fyrirtæki sem eiga skelkvóta sem eru Agustson og Fiskiðjan Skagfirðingur auk okkar. Svo er Loðnuvinnslan með smá hlutdeild og útgerð Arnars hér í bænum.“

Of mikið tekið í veiðigjöld

Rekstrarumhverfið er að mati Eggerts þokkalegt miðað við hve gengi krónunnar er óhagstætt, en hann segir veiðigjöldin ósanngjörn og þau skekki myndina mikið. Sumu fólki finnist það kannski ekki mikið, sem útgerðin sé að greiða fyrir aðganginn að auðlindinni. Gjöldin síðasta fiskveiðiári voru 5,5 milljarðar króna í heildina, en fara nú í um 10 milljarða þar sem þau miðast við góða afkomu á árinu 2015 en skulu greiðast af slakri afkomu árið 2017.

Veiðigjald á þorski er nú 27 krónur á kílóið. Þegar afkoma sjávarútvegsins er skoðuð og litið á rekstraryfirlit fiskveiða skoðað og hreinn hagnaður veiða tekinn á árinu 2015 sem var gott ár, er hreinn hagnaður á hvert úthlutað þorskígildi um 62 krónur. Af því fer helmingurinn í veiðigjöldin. Væru bara botnfiskveiðar teknar yrði talan enn lægri.

„Við erum að borga um og yfir 10% af aflaverðmæti og mér finnst það mikið. Sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin sem greiðir auðlindagjöld á Ísland og keppinautar okkar erlendis greiða ekki slík gjöld. Svo eru menn alltaf að rífast um það hvað eigi að láta okkur borga mikið en loks ef næst einhver friður um þetta blessaða veiðigjald. Þá þarf að finna eitthvað annað til að rífast um og þá koma menn fram með uppboð á aflaheimildum tilheyrandi óöryggi fyrir greinina. Bara til þess að fá „rétt verð“ fyrir heimildirnar.

Uppboðsleiðin vanhugsuð

Þá koma upp ýmis sjónamið eins og að þetta leiði bara til samþjöppunar. Þá segja pólitíkusarnir að til að koma í veg fyrir það verði að byggðatengja uppboðin á heimildunum. Þá er strax búið að útiloka hæsta mögulega verðið. Á þetta þá að vera þannig að það verði bara sá stærsti á viðkomandi svæði sem nær til sín öllum heimildunum. Þetta er svo vanhugsað að ekki er hægt að bjóða upp á svona vitleysu. Á að binda veiðiheimildirnar við landshluta eins og þær eru núna? Ætla menn að segja að ekki megi vera meiri kvóti á Vesturlandi en nú er, eða Norðurlandi og svo framvegis. Á byggðatengingin að virka þannig til eilífðar að hæstbjóðandi á hverju svæði geti fengið allt.

Ákveðnir stjórnmálaflokkar stunda það að sverta sjávarútveginn í augum almennings og nýta sér það svo til að slá sér upp á, þegar kemur að kosningum. „Látið þessa skratta bara borga. Þeir geta það vel! Það er ótrúlegt að nánast eina umræðan um þetta veiðistjórnunarkerfi snúist um það hve mikið sé hægt að skattleggja hana. Ef svona mikið er til af peningum í greininni, hlýtur að að segja að veiðistjórnunarkerfið sé að virka og hvers vegna er þá verið að tala um að því eigi bylta. Það er eins og menn ætli sér bæði að slátra beljunni og mjólka um leið.

Maður er orðinn hálf dofinn yfir þessu öllu rugli í pólitíkinni og það sem maður óttast mest núna er þessi uppboðsleið. Það er eins og mönnum líði ekkert vel nema þessa sé allt upp í loft. Hvað gagn er af því að taka af einum til að láta annan hafa,“ spyr Eggert áður en við förum niður að skoða saltfiskvinnsluna.
Ljósmyndir og texti Hjörtur Gíslason.

Viðtalið birtist fyrst í Sóknarfæri sem Athygli gefur út.

 

 

Deila: