Gómsætur humar
Okkur gamla settið langaði í gómsætan, girnilegan og rómantískan veislumat núna eitt kvöldið í hinu góða haustveðri, sem verið hefur í Grindavíkinni að undanförnu. Einkennilegt? en satt að humar varð fyrir valinu. Þessi lúxusmatur er í raun einstaklega einfaldur í eldamennsku. Aðalatriðið er að hvorki ofelda hann né ofkrydda, því þá nýtur hið einstaka sæta bragð hans sín ekki.
Svo settum við bara Dean Martin og Harry Belafonte í græjurnar, kveiktum á kertum, opnuðum eina hvítvínsflösku, kveiktum upp í arninum og nutum þess að vera til.
Uppskriftin miðast við tvo en auðvitað má stækka hana eftir þörfum.
Innihald:
8 heilir íslenskir humrar, stórir
smjör
4 hvítlauksrif
1 grein steinselja, smátt söxuð
1 msk brauðraspur
sjávarsalt
svartur nýmalaður pipar
Aðferð:
Skerið humarinn í tvennt eftir endilöngu og garnhreinsið hann. Saxið hvítlaukinn smátt og setjið í lítinn pott með smjöri og bræðið saman við vægan hita.
Penslið humrana með helmingum af hvítlaukssmjörinu og stráið smávegis af brauðraspi yfir og saltið og piprið lítillega. Leggið humrana í eldfast mót eða ofnskúffuna og grillið í ofni þar til humarinn er tilbúinn, um það bil 10 mínútur, en gætið þess að ofelda hann ekki. Stráið smá steinselju yfir humarinn áður en hann er borinn fram. Munið að það er meira en halinn sem er matur í humrinum. Klærnar eru virkilega góða og fylgi honum lifur og hrogn er hvort tveggja lostæti.
Smyrjið tvær eða fleiri sneiðar af heimilisbrauði eða franskbrauði með afganginum af hvítlaukssmjörinu og grillið í ofninum.
Berið fram með brauðinu og fersku salati að eigin vali. Gott kælt hvítvín fer afskaplega vel með þessum veislurétti.