Mikið af kolmunna til Vopnafjarðar

Deila:

Það verður nóg að gera hjá starfsmönnum fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði næstu dagana því búist er við að um 4.000 tonn af kolmunna berist þangað til vinnslu á einum degi.
Víkingur AK kom til Vopnafjarðar í gærmorgun og var áætlaður afli um 1.800 tonn af kolmunna. Venus NS var gær á leið til Vopnafjarðar með um 2.200 tonn af kolmunna og reiknaði Róbert Axelsson skipstjóri með því að koma til hafnar í kvöldi.

,,Við höfum verið að veiðum í færeysku lögsögunni og aflinn hefur verið upp og ofan. Kolmunninn er nokkuð dreifður og maður þarf að toga lengi í senn, upp í um 20 tíma, til að fá góðan afla. Stærstu holin okkar hafa verið um 400 tonn og skarpasta veiðin hefur verið eftir að skyggja tekur. Aflinn hefur verið bestur á kvöldin og á nóttunni en lítill yfir daginn,“ segir Róbert í samtali við heimasíðu HB Granda, en að hans sögn hefur ekki verið mikið af íslenskum skipum á veiðisvæðinu. Þar er hins vegar töluvert af færeyskum og hollenskum skipum.

Veðráttan hefur gert sjómönnum lífið leitt á kolmunnamiðunum. Eftir óveðurskaflana á dögunum gekk veðrið niður og veiðin glæddist en Róbert segir að það bræli hressilega af og til.

,,Það er spáð brælu og miðunum í kvöld og á morgun og þá er best  að nota tímann í löndun. Við ættum að komast aftur í slaginn seint annað kvöld eða næstu nótt en það mun væntanlega taka um 15-16 tíma að landa aflanum úr skipinu,“ sagði Róbert Axelsson.
 

Deila: