Frábær Póllandsferð og mögnuð afmælishátíð

Deila:

Starfsmenn Síldarvinnslunnar ásamt mökum héldu til Gdansk í Póllandi í síðustu viku og skiluðu sér heim á sunnudag og mánudag að aflokinni frábærri ferð. Samtals voru ferðalangarnir um 520 og skiptust í reynd í þrjá hópa. Fyrsti hópurinn flaug utan á fimmtudag frá Egilsstöðum og kom heim á sunnudag en hinir flugu frá Egilsstöðum og Keflavík á föstudag og komu heim á mánudag. Flugstjóri í flugferðunum frá Egilsstöðum var Norðfirðingurinn Kári Kárason en Kári starfaði hjá Síldarvinnslunni bæði til sjós og lands á yngri árum. Í báðum ferðunum frá Egilsstöðum var flogið yfir Fönn og út Norðfjörð á útleiðinni. Veðurblíðan var mikil og nutu farþegarnir útsýnisflugsins til hins ýtrasta.

Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar og segir þar ennfremur:

Í Póllandi var dvalið á þremur hótelum í strandbænum Sopot sem er á milli borganna Gdansk og Gdynia. Hótelin voru í háum gæðaflokki og allur aðbúnaður gestanna til fyrirmyndar. Margir nýttu tímann til að versla og fara í skoðunarferðir en þetta svæði Póllands er söguríkt og margt hægt að skoða.

Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri setur afmælishátíðina

Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri setur afmælishátíðina

Sextíu ára afmælishátíð fyrirtækisins  var haldin á laugardagskvöldið og var hreint út sagt mögnuð. Eftir að Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri hafði sett hátíðina tók Andri Freyr Viðarsson við veislustjórn og stýrði henni styrkri hendi. Gestir fengu að njóta leiks pólsks strengjakvartetts sem flutti rokklög með glæsilegum hætti og þá fengu Rúnar Eff og Erna Hrönn alla til að taka undir söng og vagga sér af krafti. Borinn var fram dýrindis matur og að borðhaldi loknu bauð Páll Óskar upp á tónlistarsýningu. Þá var stiginn dans í tveimur sölum. Í öðrum salnum hélt Páll Óskar uppi stuði eins og honum er einum lagið en í hinum sáu Rúnar Eff og Erna Hrönn um tónlistarflutninginn og var enginn svikinn af honum.

Andri Freyr Viðarsson var veislustjóri og stóð sig afar vel.

Andri Freyr Viðarsson var veislustjóri og stóð sig afar vel.

Afmælishátíðin var undirbúin af sérstakri afmælisnefnd sem í sátu Hákon Ernuson, Sigurður Steinn Einarsson, Jóhanna Bryndís Jónsdóttir og Jón Gunnar Sigurjónsson. Ekkert fer á milli mála að nefndin skilaði af sér góðu verki. Annars var Póllandsferðin skipulögð af Ferðaskrifstofu Akureyrar og hjá henni stóð allt eins og stafur á bók.

Erna Hrönn og Rúnar Eff í góðu stuði á afmælishátíðinni.

Erna Hrönn og Rúnar Eff í góðu stuði á afmælishátíðinni.

Í reynd hjálpaðist allt að til að gera þessa ferð til Póllands ánægjulega og eftirminnilega. Ferðir eins og þessi eru farnar til að auka kynni starfsfólksins og þjappa því saman þannig að gott fyrirtæki geti orðið enn betra í framtíðinni.

Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri vill þakka öllum fyrir góða helgi í Gdansk. „Það var virkilega ánægjulegt að vera með starfsmönnunum og mökum þeirra í Póllandi. Það var gaman að sjá samheldnina og gleðina sem ríkti hjá öllum. Við tökum þetta með okkur heim, höfum gleðina í fyrirrúmi í okkar störfum með liðsheildina að vopni og þá verðum við ósigrandi,“ sagði Gunnþór.

 

Þessum skrifum fylgja myndir sem Guðlaugur B. Birgisson tók í ferðinni.

 

Deila: