Ráðherra hækki aflaviðmiðun í ágúst
Stjórn Landssambands smábátaeigenda kom saman til fundar í Reykjavík þann 28. júlí. Fjölmargt var á dagskrá fundarins. Sérstaklega var ályktað um strandveiðar, línuívilnun, byggðakvóta, veiðigjald og fiskverð. Eftirfarandi ályktun um strandveiðar 2017 frá stjórn Landssambands smábátaeigenda er beint til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
„Strandveiðar 2017 hafa ekki uppfyllt þær væntingar sem þátttakendur gerðu til þeirra. Þrátt fyrir að 11% færri stundi veiðarnar í ár en í fyrra, fækkun um 72 báta, og því meira sem kemur í hlut hvers og eins er aflaverðmæti nú fjórðungi lægra en í fyrra. Hrun fiskverðs og ónægar veiðiheimildir eru helstu orsakavaldarnir.
Til að koma til móts við erfiðleika þessu samfara fer stjórn LS þess á leit að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hækki aflaviðmiðun til strandveiða í ágúst þannig að ekki komi til stöðvunar veiða.
Stjórnin bendir á að vegna vinnustöðvunar á fiskveiðiárinu verður þorskafli nokkuð undir því sem aflaregla gerir ráð fyrir að veitt verði – 244 þúsund tonn. Samkvæmt tölum Fiskistofu var þorskafli á fiskveiðiárinu þann 21. júlí – 212 þúsund tonn, sem er um 17 þúsund tonnum minna en á sama tíma á fiskveiðiárinu 2015/2016.
Með því að fallast á beiðni LS fást mikilvægar upplýsingar um veiðar á svæði A. Hægt verður að meta sóknina m.t.t. hugmynda sem fram komu í vinnuhópi sem yfirfór strandveiðikerfið fyrr á þessu ári.“