Minni verðmæti þrátt fyrir meiri afla
Aflaverðmæti íslenskra skipa í apríl var tæpir 8,4 milljarðar króna sem er um 26% minna en í apríl 2016. Fiskafli íslenskra skipa í apríl var þó 5% meiri en heildaraflinn í apríl 2016, eða 109 þúsund tonn. Að magninu til munar mestu um aukinn kolmunnaafla.
Verðmæti botnfiskaflans nam 6,5 milljörðum sem er 22,6% samdráttur miðað við apríl 2016. Verðmæti þorskaflans dróst saman um 25,2%, og samdráttur varð einnig í verðmæti svo til allra annarra tegunda. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 34,9% og verðmæti uppsjávarafla dróst saman um 29%.
Á 12 mánaða tímabili frá maí 2016 til apríl 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 115 milljörðum króna sem er 20,1% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.
Minna aflaverðmæti endurspeglar þá lækkun á fiskverði almennt sem orðið hefur á síðustu 12 mánuðum. Gegnum sneitt er lækkunin 20% til 25% í botnfiski og jafnvel enn meiri í uppsjávarfiski, einkum kolmunna.