„Leiðarljósið að vanda til verka og fjárfesta skynsamlega“

Deila:

„Við erum bara hress og kát nú þegar fyrirtækið hefur náð þeim áfanga að starfa á Dalvík í einn áratug og horfum þokkalega bjartsýn til framtíðar,“ segir Guðmundur St. Jónsson framkvæmdastjóri Marúlfs ehf. en fyrirtækið varð 10 ára í byrjun árs. Haldið var upp á tímamótin með starfsmannaferð til Tenerife sem tókst í alla staði vel. Starfsfólk kom tvíeflt til baka, fullt af krafti til að takast á við þau verkefni sem biðu en mikið hefur verið að gera að undanförnu. Marúlfur vinnur úr um 2.000 tonnum af hráefni á ári og hjá félaginu eru 22 starfsmenn. Starfsemin er til húsa við Ránarbraut 10 á Dalvík.

Marúlfur hefur sérhæft sig í vinnslu fisktegunda sem aðrar vinnslur hafa ekki lagt áherslu á og segir Guðmundur að það hafi gefist vel. Steinbítur og hlýri eru þar á meðal en einnig ufsi, þorskhrogn, grásleppa og skötubörð svo dæmi séu tekin. Helstu markaðir eru í Evrópu, einkum Frakkland og Þýskaland auk Belgíu en einnig eru afurðir seldar um lengri veg, til Tyrklands og Kína. Bróðurpartur afurðanna er frystur en Guðmundur segir að einnig selji félagið aðeins af ferskum afurðum. „Við fáum hráefni víða að, kaupum umtalsvert magn á fiskmörkuðum og beint frá bátum sem við erum í viðskiptum við en einnig flytjum við inn hráefni, m.a. af norskum línuskipum. Við höfum ýmsar leiðir opnar til að verða okkur úti um nægt hráefni og má segja að hafi gengið vel. Hjá okkur hefur ekki fallið úr dagur vegna hráefnisskort í háa herrans tíð,“ segir Guðmundur.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Deila: